Dýrin léku lögregluna grátt

Tilkynnt var um laus hross í Mosfellsbæ. Mynd úr safni.
Tilkynnt var um laus hross í Mosfellsbæ. Mynd úr safni. mbl.is/Þorgeir

Dagurinn var annasamur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu ef marka má dagbók embættisins. Líkamsárás, vinnuslys og laus hross settu strik í reikninginn.

Brotist var inn í ónefnt fyrirtæki í Háaleitis- og bústaðahverfi og var einn handtekinn fyrir líkamsárás í miðborg Reykjavíkur.

Þá lenti einn óheppinn í vinnuslysi í Hlíðunum og hlaut áverka á fingri. Í Hlíðunum neituðu hótelgestir einnig að yfirgefa herbergi sitt.

Staða kattarins óljós

Fram kemur í dagbókinni að köttur hafi verið „fyrir bifreið“ í Breiðholtinu, ekki er ljóst hvort að kötturinn hafi setið fyrir bifreiðinni og stöðvað þannig umferð eða orðið fyrir bifreiðinni.

Þá beit hundur barn í Árbænum, var þó ekki um alvarlega áverka að ræða, að því er segir í dagbókinni, og laus hross ollu áhyggjum í Mosfellsbæ. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka