Hjólaði í stórgrýti meðfram brúninni

Leifur á fullri ferð á hjólinu í Sviss.
Leifur á fullri ferð á hjólinu í Sviss. Ljósmynd/Aðsend

Hjólreiðaferð Leifs Harðarsonar upp á Akrafjall á dögunum er sú skemmtilegasta sem hann hefur farið hér á landi og þótt víðar væri leitað.

Hann hjólaði á rafmagnshjóli sínu niður frá Háahnúki, næsthæsta tindi fjallsins, í stórgrýti meðfram fjallsbrúninni og segist fá „kikk” út úr því að vera í slíkum aðstæðum.

Í um tíu mínútna YouTube-myndskeiði sem hann tók á leiðinni niður sést vel hvernig um var að litast en einnig hefur hann sett efni inn á TikTok.

Skipstjóri Baldurs aðra hvora viku 

Spurður út í ástæðuna fyrir ferðinni upp á Akrafjall segist Leifur vinna sem skipstjóri Breiðafjarðarferjunnar Baldurs aðra hvora viku. Vikuna sem hann er í fríi reynir hann að hjóla eins mikið og hann getur. Lítið er um hjóla- og gönguleiðir á Snæfellsnesi og því ferðast hann í Borgarfjörðinn og sunnar í átt að höfuðborgarsvæðinu þar sem mun fleiri leiðir eru í boði. Hann segir félaga sína hafa tekið þátt í utanvegahlaupinu Akrafjall Ultra í síðasta mánuði og fékk hann þá hugmyndina að því að hjóla þangað upp.

Ferðalagið upp og niður Akrafjall tók um klukkustund. Fyrst fór Leifur áleiðis að Geirmundartindi, sem er 643 metra hár, og þaðan niður, yfir Berjadalsá og upp að Háahnúk, sem er 555 metra hár. Þaðan lá leiðin niður meðfram fjallsbrúninni með fallegt útsýnið til sjávar á vinstri hönd. 

Akrafjall. Háihnúkur er hægra megin.
Akrafjall. Háihnúkur er hægra megin. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Spurður segir Leifur förina ekki hafa verið líkamlega erfiða fyrir sig. „En þetta er rosalega tæknilegt og gróft,” segir hann og bætir við að hættan á því að detta og meiða sig hafi verið mikil, enda afar grýtt svæði meðfram hryggnum niður frá Háahnúki. Hann mælir reyndar með því að fara frekar sömu leið upp og hann fór niður fjallið.

Varstu ekkert smeykur að fara meðfram brúninni?

„Þetta er svolítið það sem ég leitast eftir persónulega. Þó að ég reyni ekki að draga alla með mér í svona leiðangra þá fæ ég kikk út úr þessu. Markmiðið mitt var alltaf þegar ég byrjaði í þessu og hafði mikinn áhuga fyrir þessu var að reyna að hjóla eitthvert sem fólki finnst ekki vera möguleiki að hjóla,” svarar Leifur, sem segir mikilvægt að vera rétt stilltur og með athyglina 100% undir stýri.

Leifur ásamt fjölskyldu sinni á Þingvöllum.
Leifur ásamt fjölskyldu sinni á Þingvöllum. Ljósmynd/Aðsend

Var þetta gaman?

„Ég var þarna í roki, norðaustan 10 metrum á sekúndu en einhvern veginn er þetta það skemmtilegasta sem ég hef hjólað á Íslandi og með því skemmtilegra sem ég hef hjólað erlendis,” segir hann og nefnir að hann hafi hjólað bæði í Sviss og á Ítalíu svo dæmi séu tekin.

„Það var eitthvað extra sem ég fékk út úr þessu. Mér fannst þetta bæði ógeðslega tæknilegt og hægt en líka mikill hraði. Maður er að fara upp í 50 km hraða þarna niður þar sem þetta er aðeins meira aflíðandi.”

Leifur á ferðinni við Grundarfjörð.
Leifur á ferðinni við Grundarfjörð. Ljósmynd/Aðsend

Getur upplifað aftur og aftur

Þó að hann hafi ekki getað notið útsýnisins á leiðinni niður fjallið getur hann alltaf horft aftur á myndskeiðið sem hann tók. „Það er skemmtunin við að taka upp, ég fæ alltaf að upplifa þetta aftur og aftur.”

Leifur, sem verður þrítugur síðar á árinu, setti færslu um hjólreiðaferðina á Facebook og hefur fengið góð viðbrögð við henni. Þar segist hann hafa stundað fjallahjólreiðar í rúmt ár og finnst vanta upplýsingar um góðar leiðir hérlendis „bæði gps tracks, myndir og myndbönd”. Hann bætir við: „Ég ætla því að leggja mitt af mörkum og búa til myndbönd af þeim ferðum sem ég fer og segja frá því helsta sem mér þykir vert að minnast á.”

Hafnarfjall og Þórsmörk

Spurður hvert förinni verður heitið næst kveðst hann langa upp hið bratta Hafnarfjall, skammt frá Borgarnesi, eftir að hafa séð fólk fara þangað upp. Annars stefnir hann á Þórsmörk í næstu viku.

Leifur segir mikilvægt að aka eftir stígum.
Leifur segir mikilvægt að aka eftir stígum. Ljósmynd/Aðsend

Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að vera á stígum, bæði á göngu- og hjólaleiðum, og reynir sjálfur að gera sem mest af því. Fleiri stíga vanti þó víða um land til að fólk eigi auðveldara með að stunda útivist, hvort sem um er að ræða hjólreiðar, hlaup eða göngur.  

Eru hjólreiðar góð hvíld frá því að sigla Baldri?

„Þú getur ekki hugsað um neitt nema það sem þú ert akkúrat að gera í mómentinu,” svarar Leifur og segir crossfit, sem hann stundar einnig, vera svipaða íþrótt og hjólreiðar hvað það varðar.

Ferjan Baldur við bryggju.
Ferjan Baldur við bryggju. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert