Laus úr haldi eftir hópslagsmál

Lögreglan rannsakar málið.
Lögreglan rannsakar málið. Ljósmynd/Colourbox

Maðurinn sem var handtekinn vegna hópslagsmálanna í Kópavogi á mánudagskvöld var látinn laus úr haldi daginn eftir, að lokinni yfirheyrslu.

Enginn annar hefur verið handtekinn í tengslum við málið og engin kæra hefur heldur verið lögð fram, að sögn Heimis Ríkarðssonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Maður var skorinn á hendi með hnífi í árásinni. Spurður nánar út í rannsóknina segir Heimir lögregluna eiga eftir að ná betur utan um það sem gerðist en að um einhvers konar ágreining hafi verið að ræða.

10 til 30 manns

Heimir kveðst ekki hafa nákvæma tölu yfir hversu margir slógust en fyrst var tilkynnt að þeir hefðu verið um 10 talsins. Í annarri tilkynningu sem lögreglunni barst var talað um rúmlega 20 manns og í enn einni var talað um 30.

Lögreglan lagði hald á hnífa og barefli sem voru notuð í slagsmálunum. Flestir sem tókust á eru menn í kringum tvítugt en sá yngsti er 17 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert