Skoða gögn vegna þjófnaðar í Hamraborg

Rannsókn málsins er enn í gangi.
Rannsókn málsins er enn í gangi. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er að fara í gegnum gögn frá tæknideild vegna þjófnaðarins í Hamraborg fyrir um tveimur og hálfum mánuði síðan.

Heimir Ríkarðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vill ekki tilgreina hver þessi gögn eru.

Hann segir málið í ákveðinni kyrrstöðu og lítið nýtt að frétta sem stendur.

Einn með stöðu sakbornings

Maðurinn sem var handtekinn í tengslum við málið og síðar látinn laus hefur stöðu sakbornings. Enginn annar er grunaður í málinu.

20 til 30 milljónum króna var stolið úr örygg­isbifreið á vegum Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg í lok mars. Enn vantar stóran hluta peninganna sem var stolið, eða um tvo þriðju hluta.

Yaris-bifreiðin sem þjófarnir voru á þegar þeir frömdu ránið er enn ófundin að sögn Heimis.

Hann segir jafnframt að vísbendingum um peningaseðla í umferð í tengslum við þjófnaðinn hafi fækkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert