Vilja ekki heyra minnst á verðlagið

Að ofan: Sigsten, Tron, Tove og Lisbet, ferðamenn frá Noregi. …
Að ofan: Sigsten, Tron, Tove og Lisbet, ferðamenn frá Noregi. Að neðan: Maggie og Nate, ferðamenn frá Flórída. Samsett mynd/mbl.is/Vallý

Sumarið er komið og ferðamenn eru farnir að flykkjast til landsins. Reykjavík iðar af lífi og blaðamaður mbl.is tók púlsinn á nokkrum ferðamönnum í miðbænum í dag.

Norsku ferðamennirnir Tove, Lisbet, Sigsten og Tron eru ekki að koma í fyrsta skiptið til Íslands.

Tron er að koma í ellefta sinn til Íslands, hin hafa líka öll komið áður, en misoft.

Þau ætla að vera í tíu daga á Íslandi og gista á litlum gistiheimilum, bæði í Reykjavík og úti á landi.

Sigsten, Tron, Tove og Lisbet ætla að heimsækja Vestmannaeyjar, keyra …
Sigsten, Tron, Tove og Lisbet ætla að heimsækja Vestmannaeyjar, keyra hringveginn og fara Gullna hringinn. mbl.is/Vallý

Örlítið dýrara en í Noregi

Tilgangur ferðarinnar er að heimsækja Vestmannaeyjar, keyra hringveginn og fara Gullna hringinn, segja þau og eru full tilhlökkunar. 

Við elskum Ísland og fólkið hérna!“ segja þau í kór.

Voruð þið smeyk við að koma til Íslands út af eldgosinu?

„Nei,“ svara þau og Tron bætir við að þau hafi verið hér fyrir tveimur árum og farið í gönguferð með hópi upp að eldgosinu til að sjá það með berum augum. 

Þau segja verðlagið á Íslandi svipað og í Noregi, en sumt sé örlítið dýrara hér.

„Það skiptir ekki máli þegar maður er í fríi,“ segir Sigsten og hlær.

„Fallegasta borg í heimi“

Þeirra uppáhalds staðir á Íslandi eru Vík í Mýrdal, Stykkishólmur, Ísafjörður og Reykjavík.

„Reykjavík er fallegasta borg í heimi, hún hefur alls konar byggingar, margar gamlar og fallegar og það er skemmtilegt,“ segir Sigsten.

Hver er uppáhalds íslenski maturinn ykkar?

„Lambasúpan á Kaffi Loka,“ segir Tron. Hin taka undir með honum og bæta við að þeim þyki lambakjöt mjög gott og að þau ætli á Kaffi Loka í kvöld að gæða sér á lambasúpu og lambaskanka.

Maggie og Nate komu til að heimsækja Vestfirðina.
Maggie og Nate komu til að heimsækja Vestfirðina. mbl.is/Vallý

Komu frá Flórída til að skoða Vestfirðina

Ferðamennirnir Maggie og Nate komu alla leið frá Flórída til Íslands og eru hér í annað sinn. Tilgangur ferðarinnar er að skoða Vestfirðina, þau komu með skipi frá Noregi og leigðu sér bíl í fimm daga.

„Það er miklu hlýrra í Flórída heldur en hér,“ segir Nate og hlær.

Hvað er það við Ísland sem gerir það að verkum að þið vilduð koma aftur?

„Við elskum Ísland, þetta er í annað sinn sem við komum hingað á tveimur árum. Við komum síðast um vetur og vorum í þrjár vikur, til að sjá norðurljósin. Þá keyrðum við hringveginn en við komumst ekki á Vestfirðina af því að vegirnir voru lokaðir,“ segir Maggie, en þau segja fossana það besta við Ísland.

Þau ákváðu þá að koma aftur yfir sumartímann og keyra Vestfirðina og sjá hvað þeir hafa upp á að bjóða. 

Hvað finnst ykkur um verðlagið?

„Ó nei, við viljum ekki tala um það, það er mjög dýrt hérna,“ segja þau og hlæja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert