Vissu ekki af eldgosinu

Blaðamaður mbl.is tók nokkra ferðamenn tali þar sem þeir áttu …
Blaðamaður mbl.is tók nokkra ferðamenn tali þar sem þeir áttu leið um miðbæinn. mbl.is/Viktoría Benný

Ferðamenn á Íslandi virðast ekki hræddir við yfirstandandi eldgos og láta það ekki stoppa sig í að heimsækja Ísland og ferðast um landið. Blaðamaður mbl.is rölti niður Laugaveginn og náði tali af nokkrum þeirra.

Ferðamennirnir Cindy, Susan, Teressa og Brithi koma frá Kanada og eru að heimsækja Ísland í níu daga til þess að skoða náttúrufegurð landsins. 

Þær fóru í þriggja daga gönguferð í Þórsmörk sem þær segja hafa verið frábæra en erfiða.

„Þetta var áskorun, en hvert skref var þess virði,“ segir Teressa. „Útsýnið var æðislegt,“ bætir hún við.  

„Við fengum tvo daga af bláum himni og sólskini, sem okkur hefur verið sagt að sé sjaldgæft,“ segir Brithi hlæjandi. 

Ferðamennirnir Cindy, Susan, Teressa og Brithi koma frá Kanada til …
Ferðamennirnir Cindy, Susan, Teressa og Brithi koma frá Kanada til að heimsækja Ísland. mbl.is/Viktoría Benný

Fylgst með fréttum af gosinu í heilt ár

Að sögn kvennanna fóru þær á veitingastað þar sem þær fengu níu rétta máltíð eingöngu með íslenskum réttum og smökkuðu þar hreindýr, lax og kjötsúpu, en þær segja að hreindýrið hafi verið uppáhaldið þeirra. 

Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem Teressa og Brithi heimsækja Ísland. Susan og Cindy eru að sjá landið í fyrsta skipti en fullyrða að þær muni koma aftur. 

Hafið þið heyrt af eldgosinu?

„Já, við höfum verið að fylgjast með fréttum um það í heilt ár,“ segir Brithi.

Konurnar segjast þó ekki hræðast eldgosið.

Eric ætlar að ferðast um landið til þess að taka …
Eric ætlar að ferðast um landið til þess að taka ljósmyndir af náttúruperlum. mbl.is/Viktoría Benný

Hristi hræðsluna af sér

Eric er ferðamaður frá Iowa-ríki í Bandaríkjunum, en hann kom til Íslands til þess að ferðast með hópi af ljósmyndurum sem ætla sér að taka ljósmyndir af náttúruperlum Íslands og lundum. 

Þegar blaðamaður náði tali af honum þá hafði hann aðeins verið á landinu í rúmlega fjóra klukkutíma.

Eric segist hafa heyrt af eldgosinu og að hann hafi verið smá hræddur, en að hann hafi náð að hrista af sér hræðsluna þegar hann komst að því að ekki væri um öskugos að ræða. 

Lisandro og Laurane eru á Íslandi í brúðkaupsferð.
Lisandro og Laurane eru á Íslandi í brúðkaupsferð. mbl.is/Viktoría Benný

60 evrur fyrir pítsu og pasta

Lisandro og Laurane eru hjón í brúðkaupsferð sem koma frá Frakklandi. 

Þau vörðu smá tíma á Grænlandi áður en ferðinni var heitið til Íslands. 

Spurður út í eldgosið fer Lisandro að tala um eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010. Í ljós kemur að hjónin vissu ekki að það væri eldgos í gangi núna og voru nokkuð hissa. 

Hvernig finnst ykkur verðlagningin hérna á Íslandi?

„Svo dýrt, ég borgaði 60 evrur fyrir pítsu og pasta í gær, það er klikkun,“ segir Lisandro, en 60 evrur jafngilda rúmlega níu þúsund krónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert