Hluti farþega þegar útskrifaður

Rútan keyrði út af veginum í Öxnadal fyrr í dag.
Rútan keyrði út af veginum í Öxnadal fyrr í dag. mbl.is/Þorgeir

Ekki liggur fyrir hvort fleiri verði fluttir til Reykjavíkur vegna rútuslyssins sem varð í Öxnadal seinni partinn. Vegurinn er enn lokaður og verður áfram fram á nótt en rannsóknarvinna og frágangur á vettvangi stendur yfir.

Þetta segir Hermann Karlsson, aðgerðarstjóri almannavarna á Norðurlandi, í samtali við mbl.is.

Hann segir að búið sé að hafa samband við ferðaskrifstofuna sem á í hlut en allir 22 farþegar rútunnar voru erlendir ferðamenn.

Viðbragðsaðilar á svæðinu í Öxnadal.
Viðbragðsaðilar á svæðinu í Öxnadal. mbl.is/Þorgeir

Tvær sjúkraflugvélar og ein þyrla

„Allir aðilar voru komnir á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar um 20:30. Í kjölfarið var flogið með fimm suður með tveimur sjúkraflugvélum og þyrlunni,“ segir Hermann

Hann segir suma farþegana útskrifaða nú þegar en aðrir verði lagðir inn á Sjúkrahúsið á Akureyri. Ekki liggi fyrir hverjir verði fluttir til Reykjavíkur til að dvelja á sjúkrahúsinu þar. Nú standi yfir samtal innan heilbrigðiskerfisins um hvernig best verði að haga því.

„Rauði Krossinn opnaði fjöldahjálpastöð á Akureyri fyrir þá sem útskrifaðir eru og þeir aðstoðaðir með framhaldið,” segir Hermann.

Getur ekki svarað um hvort farþegi sé í lífshættu

Hann segir að vonandi liggi fyrir sem fyrst hvernig aðdragandi slyssins var. Það kunni þó að vera einhver tími í það.

Aðspurður sagðist Hermann ekki geta sagt til um það hvort einhver farþeganna væri í lífshættu.

Fyrr í kvöld greindi G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, frá því í samtali við mbl.is að vegablæðingar hefðu verið á veginum í Öxnadal í síðustu viku. Gripið hafi verið til þeirra ráða að sanda veginn vegna þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka