Kallar eftir óháðri rannsókn vegna þungra ásakana

Hólmavík.
Hólmavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Jón Jónsson, þjóðfræðingur og ferðaþjónustubóndi á Kirkjubóli á Hólmavík, hyggst fara fram á íbúakosningu í sveitarfélaginu.

Vill Jón að greidd verði atkvæði um kröfu hans til sveitarfélagsins um að gerð verði óháð rannsókn á þungum ásökunum starfsmanna Strandabyggðar í hans garð.

Hefur Jón meðal annars verið sakaður um sjálftöku á fjármunum úr sveitarsjóði í eigin þágu að upphæð 61.423.961 kr. þegar hann sat í hreppsnefnd á síðasta kjörtímabili sveitarfélagsins, að því er fram kemur í færslu sem hann birtir á Facebook. 

Segist hann vilja að meintir glæpir hans og ásakanir verði rannsakaðar af óháðum aðila.

Árangurslaust kallað eftir rökstuðningi

„Ég sætti mig ekki við þessa atlögu að mannorði mínu og tel að um hrein ósannindi og rógburð sé að ræða,“ segir í færslunni.

Segist Jón hafa árangurslaust kallað eftir rökstuðningi við ásökununum en engin svör eða sönnunargögn hafi verið lögð fram. Sveitastjórn hafi þó ýjað að því að slík gögn væru fyrir hendi hjá sveitarfélaginu en þegar Jón hafi óskað skýringa á því orðalagi hafi hann engin svör fengið.

„Í framhaldinu óskaði ég svo eftir að fá afhent öll gögn sem tengjast mér á tilteknu tímabili úr skjalasafni Strandabyggðar, með tilvísun til upplýsingalaga (hver maður á rétt á gögnum í skjalasöfnum stjórnvalda þar sem um hann er fjallað). Þetta sendi ég inn í janúar síðastliðnum. Þar voru þó engin sönnunargögn um meintan glæpaferil minn.“

Nefnir Jón í færslu sinni að ásakanirnar hafi haft mikil áhrif á fjölskyldulíf hans. Eiginkona hans hafi tapað starfsgleði sinni og sagt starfi sínu lausu vegna ásakana og ills umtals sem fylgdi í kjölfar þeirra.

Vilji hún þá einnig flytja úr sveitarfélaginu þar sem það sé „ómögulegt að búa í samfélagi þar sem forsvarsfólk sveitarfélagsins getur fullyrt hvað sem er um aðra, án þess svo að þurfa að bera ábyrgð á orðum sínum eða sanna ásakanir“.

Hagsmunir séu augljósir

Jón segist hafa sent tilkynningu sína á sveitarstjórn Strandabyggðar þann 6. júní sl. en málinu hafi verið frestað á fundi stjórnarinnar. Þurfi þau samkvæmt lögum að halda annan fund í síðasta lagi 4. júlí og ákveða hverju þau svari. Segir Jón að þeim sé skylt að veita svar og geti hann ekki byrjað að safna undirskriftum, til að fara fram á íbúakosningu, fyrr en það svar kemur.

Í tilkynningunni sem Jón sendi sveitarstjórn Strandabyggðar segir að það séu hagsmunir sveitarfélagsins að málið verði upplýst.

„[E]nda er eðlilegt að gerð verði krafa um endurgreiðslu ef um slíka sjálftöku úr sveitarsjóði er að ræða. Sama gildir um hagsmuni þess sem fyrir þessum ásökunum hefur orðið, það hlýtur að vera öllum ljóst að öll þátttaka hans í samfélaginu veltur á því að upplýst verði hvort ásakanir byggi á raunveruleikanum eða séu rógburður og ósannindi. Slíkt skiptir í senn verulegu máli fyrir stöðu viðkomandi á vinnumarkaði, í félagsstörfum, daglegu lífi og við ákvarðanatöku fjölskyldunnar um áframhaldandi búsetu á svæðinu.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka