Tvær sjúkraflugvélar í viðbragðsstöðu

Sjúkraflugvélar Norlandair í viðbragðsstöðu.
Sjúkraflugvélar Norlandair í viðbragðsstöðu. Ljósmynd/Aðsend

Rúta fór út af veginum í Öxnadal fyrr í kvöld. Samhæfingarmiðstöð almannavarna hefur verið virkjuð vegna málsins og búið er að loka fyrir umferð yfir heiðina vegna slyssins.

Rútan fór af veginum sunnan við Engimýri samkvæmt sjónarvotti sem mbl.is ræddi við. 

Þá voru að minnsta kosti fimm lögreglubifreiðar og sjúkrabifreiðar ásamt tveimur slökkviliðsbifreiðum sem óku í átt að slysinu.

Uppfært klukkan 17:56

Í rútunni voru 22 farþegar og búið er að óska eftir tveimur sjúkraflugum og sjúkraþyrlum. 

Þetta staðfestir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, í samtali við mbl.is.

Lögreglan á Norðurlandi eystra bendir á hjáleið um Tröllaskaga í tilkynningu sinni á Facebook.

Rútan fór út af veginum yfir Öxnadalsheiði.
Rútan fór út af veginum yfir Öxnadalsheiði. Ljósmynd/Aðsend

Uppfært klukkan 18:23

Sjúkraþyrla mun lenda á Akureyri til þess að flytja farþega rútunnar segir Hjördís í samtali við mbl.is.

Hún segist ekki geta sagt um hversu margir væru alvarlega slasaðir en segir slysið sjálft alvarlegt. 

Uppfært klukkan 18:59

Farþegar rútunnar voru erlendir ferðamenn og hafa flestir þeirra verið fluttir af vettvangi og á Sjúkrahúsið á Akureyri. Þónokkur fjöldi þeirra er slasaður, segir í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. 

Þá eru tvær sjúkraflugvélar klárar á Akureyri og þyrla Landhelgisgæslunnar komin til Akureyrar til að flytja farþega til Reykjavíkur. 

Lögreglan bendir á að vegurinn um Öxnadal er enn lokaður og verður fram eftir kvöldi og jafnvel nóttu. Þá eru vegfarendur sem þurfa að komast milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar í kvöld hvattir til þess að fara fyrir Tröllaskagann í gegnum Siglufjörð og Ólafsfjörð.

Fréttin hefur verið uppfærð

 

Slysið varð í Öxnadal.
Slysið varð í Öxnadal. Kort/map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka