Helsta sóknarfærið í elstu hópunum

Janus Guðlaugsson segir aldrei of seint að breyta um lífsstíl.
Janus Guðlaugsson segir aldrei of seint að breyta um lífsstíl. Mbl.is/Eyþór Árnason

„Heilsutengdar forvarnir skipta sköpum þegar kemur að heilsu fólks, ekki síst þegar kostnaður er að sliga heilbrigðiskerfið okkar. Þessi heilsuefling meðal aldri aldurshópa er helsta sóknarfærið varðandi heilsu og velferð í dag enda sýna rannsóknir að bæta megi alla þætti heilsunnar með markvissri þjálfun. Þá benda nýjar rannsóknir á að koma megi í veg fyrir allt að 30% af heilabilunum með markvissum lífsstíl. Lyf eru líka mikilvæg en þau koma ekki í staðinn fyrir heilsutengdar forvarnir.

Þetta segir dr. Janus Guðlaugsson, stofnandi Janusar heilsueflingar, sem hefur sérhæft sig í heilsueflingu eldra fólks.

Og þörf er á samstilltu átaki. „Við viljum vinna í takti við heilsugæslurnar og heilbrigðiskerfið í heild að því að auka lífsgæði og bæta heilsu eldri borgara og minnka álagið á heilbrigðiskerfið. Verkefni okkar fellur algjörlega að verkefninu; Gott að eldast.“

Það vekur Janusi bjartsýni að samstarf hefur tekist við nokkur sveitarfélög um átakið. Fyrst Reykjanesbæ árið 2017 en síðan Hafnarfjörð, Vestmannaeyjar, Grindavík, Seltjarnarnes, Garðabæ, Fjarðabyggð og nú síðast Borgarbyggð.

Janus leiðbeinir viðskiptavinum sínum.
Janus leiðbeinir viðskiptavinum sínum. Mbl.is/Eyþór Árnason


„Nokkur sveitarfélög hafa að undanförnu átt við okkur samræður og fengið kynningu á verkefninu. Þá hefur verkefnið verið innleitt á höfðuðborgarsvæðinu án stuðnings borgarinnar og einnig á Akureyri. Þá hefur Janus heilsuefling átt í góðu samstarfi við Embætti landlæknis og innleitt verkefnið til Spánar og Litháen með góðum árangri.“

Sá elsti orðinn 101 árs

– Hvaða fólk leitar til ykkar? Er það einhver tiltekinn hópur, öðrum fremur?

„Nei, við fáum allan skalann til okkar. Fólk sem er í mjög slæmu formi og fólk sem er í ljómandi góðu formi en vill samt gera enn betur – og allt þar á milli. Þannig erum við með tvo eða þrjá hjá okkur sem eru að taka þátt í heilum og hálfum járnkarli. Fólk um sjötugt. Elsta fólkið hjá okkur er á tíræðisaldri og sá elsti sem ég hef þjálfað er orðinn 101 árs og æfir enn reglulega. Fólkið sem leitar til okkar er eins misjafnt og það er margt. Við aðlögum þjálfunina að hverjum og einum þar sem gæði þjálfunar ráða ríkjum. Sumt af þessu fólki er komið fram á bjargbrúnina með sína heilsu og þarf nauðsynlega á inngripi að halda. Það er alltaf jafn ánægjulegt að fylgjast með þessu fólki fara fram og ná árangri.“

Að sögn Janusar er meðalaldur skjólstæðinga hans um 72 ár og þjónustan beinist ekkert síður að fólki sem enn er á vinnumarkaði en þeim sem sestir eru í helgan stein. Æ fleiri sækjast í seinni tíð eftir því að halda áfram að starfa eftir sjötugt og „hver er aðalforsenda þess að það sé hægt?“ spyr Janus.

Við vitum svarið, það er heilsan.

Ítarlega er rætt við Janus í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka