Segir borgina græða á lóðaafhendingu

Nauðsynlegt reyndist fyrir Reykjavíkurborg að ganga til samninga við olíufélögin um brotthvarf bensínstöðva fyrirtækjanna, til þess að greiða mætti fyrir hraðari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og eftir atvikum annars konar atvinnustarfsemi.

Hiti í umræðunni

Þetta segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og fyrrverandi borgarstjóri, í viðtali í Spursmálum. Í spilaranum hér að ofan má sjá orðaskipti hans við þáttastjórnanda um málið og er ekki ofsögum sagt að hiti hafi færst í leikinn á tímabili.

Fullyrðir hann að þetta hafi verið nauðsynlegt, jafnvel í þeim tilvikum þar sem olíufélögin voru með útrunna lóðaleigusamninga.

Dómaframkvæmd hefur sýnt að í slíkum tilvikum geta sveitarfélög krafist þess af olíufélögum að þau taki hatt sinn og staf og fjarlægi eigur sínar af lóðunum án þess að fyrir það komi nokkrar bætur.

Hleypi upp öllum atvinnurekstri

Segir Dagur að með slíkri afgreiðslu sé í raun verið að hleypa upp öllum atvinnurekstri í landinu þar sem lóðaleigusamningar renna sitt skeið á enda. Slíkt sé ekki boðlegt. Skarst nokkuð í brýnu í þættinum þegar þetta mál bar á góma.

Ljóst er að olíufélögin hafa bókfært byggingarrétti á þessum lóðum svo nemur milljörðum króna. Hefur Dagur legið undir gagnrýni fyrir þetta, m.a. í Kveiksþætti sem yfirmenn Ríkisútvarpsins reyndu að koma í veg fyrir birtingu á fyrir skemmstu. Lukkaðist það ekki fullkomlega og fór þátturinn í loftið undir merkjum Kastljóss.

Viðtalið við Dag B. Eggertsson má sjá í spilaranum hér að neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert