„Þakklæti var þeim ofarlega í huga“

Frá slysstað í Öxnadal í gær.
Frá slysstað í Öxnadal í gær. mbl.is/Þorgeir

Starfsfólk Rauða krossins á Akureyri aðstoðaði tékknesku ferðamennina sem voru í rútunni sem valt í Öxnadal síðdegis í gær. Neyðarvarnarfulltrúi hjá Rauða krossinum segir ferðamennina þakkláta fyrir veitta aðstoð.

22 farþegar voru í rútunni auk ökumanns og þurfti að flytja stóran hluta þeirra á sjúkrahús á Akureyri, en fimm voru fluttir með sjúkraflugvél og þyrlu til Reykjavíkur.

Þeim sem ekki þurftu að gista á sjúkrahúsinu á Akureyri í nótt var komið fyrir á hóteli á Akureyri. Rauði krossinn tók þátt í að aðstoða ferðamennina við að finna gistingu.

„Viðbragðshópur tók þátt í aðgerðum og okkar hlutverk var að aðstoða söfnunarsvæði slasaðra. Það var ekki opnuð fjöldahjálpastöð en við vorum til aðstoðar á sjúkrahúsinu á Akureyri og að hjálpa því fólki sem var útskrifað af sjúkrahúsinu að fá gistingu,“ segir Álfheiður Svana Kristjánsdóttir, neyðavarnarfulltrúi Rauða krossins á Akureyri, í samtali við mbl.is.

Gekk ljómandi vel

Álfheiður segir að viðbragðsaðilar á Norðurlandi hafi staðið sig með afbrigðum vel í þessum aðgerðum en rútuslysið í gær er með stærri hópslysum sem verða.

„Við unnum eftir áætlunum sem virkuðu. Þetta gekk ljómandi vel og sérstaklega í ljósi þess að hér er mikið um að vera. Það eru útskriftir úr háskóla og menntaskóla, það eru bíladagar á Akureyri og hér er skemmtiferðaskip í höfninni,“ segir Álfheiður.

Spurð um ástand fólksins sem Rauði krossinn hlúði að segir Álfheiður:

„Þau stóðu sig vel í ljósi aðstæðna og voru þakklát fyrir hversu öflugt kerfið okkar er. Þakklæti var þeim ofarlega í huga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka