„Bókin er greinilega að rjúka út“

Margrét Hallgrímsdóttir, skrifstofustjóri hjá forsætisráðuneytinu og formaður afmælisnefndar, segir að …
Margrét Hallgrímsdóttir, skrifstofustjóri hjá forsætisráðuneytinu og formaður afmælisnefndar, segir að bókin hafi verið prentuð í 30 þúsund eintökum og segir hún að reiknað sé með að bókin verði endurprentuð ef til þess þurfi. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi/Anton

Bókin Fjallkonan. Þú ert móðir vor kær sem forsætisráðuneytið gaf út í tilefni 80 ára afmæli lýðveldisins og er dreift um allt land er greinilega vinsæl en borið hefur á því að upplag hennar hafi klárast á nokkrum stöðum.

Bókina er meðal annars hægt að nálgast í sundlaugum, á söfnum og bókasöfnum en blaðamaður mbl.is kom að tómum kofanum í Laugardalslaug, Árbæjarlaug og Breiðholtslaug þegar hann ætlaði að næla sér í eintak af bókinni.

„Það eiga að vera til birgðir hjá Reykjavíkurborg sem er að dreifa henni en fyrst bækurnar eru búnar á þessum stöðum þá er hún greinlega að rjúka út. Það var verið að dreifa þúsundum bóka í Reykjavík og hún ætti að vera til út um allt,“ segir Margrét Hallgrímsdóttir, skrifstofustjóri hjá forsætisráðuneytinu og formaður afmælisnefndar, við mbl.is.

Bókin, sem er gjöf til þjóðarinnar, hefur að geyma greinar eftir þekkta sérfræðinga og úrval þjóðhátíðarljóða sem getur nýst fólk, til dæmis í kórastarfi.

Margrét segir að bókin hafi verið prentuð í 30 þúsund eintökum og segir hún að reiknað sé með að bókin verði endurprentuð ef til þess þurfi.

Blaðamaður mbl.is kom að tómum kofanum í Laugardalslaug í dag.
Blaðamaður mbl.is kom að tómum kofanum í Laugardalslaug í dag. mbl.is/Anton

Virðist vera mikill áhugi á bókinni

„Við erum að reyna að koma í veg fyrir að þetta verði eitthvað pappírsfjall og viljum því frekar endurprenta bókina. Það virðist vera mikill áhugi á bókinni sem er mjög ánægjulegt og það er alveg líklegt að prentuð verði fleiri eintök,“ segir Margét en bókinni er dreift út um allt land.

Hún segir að fólk sé átta sig á gildi fjallkonunnar og hvernig hún standi sem táknmynd fyrir land og þjóð.

„Þetta er gríðarlega vönduð og fín bók sem hefur fengið jákvæða umfjöllun. Fólk mun sjá það að það var vandað til verka og er eitthvað sem við getum verið stolt af. Þetta er ákveðið þjóðartákn,“ segir Margrét.

Umrædd bók komst í fréttirnar í síðasta mánuði en þá þurfti að farga 30 þúsund eintökum þar sem formálinn var ritaður af Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, sem ákvað að bjóða sig fram til forseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert