„Borga brjálæðislegan pening í leigu“

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Sigrún með riddarakrossinn en …
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Sigrún með riddarakrossinn en sextán manns fengu heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Við lokum augunum fyrir fátækt á Íslandi, þannig er það bara. Það getur verið þægilegt að stinga höfðinu í sandinn,“ segir Sigrún Steinarsdóttir Ellertsen, stofnandi og umsjónarmaður Matargjafa Akureyrar og nágrennis, en hún hlaut í dag riddarakross fyrir framlag sitt til mannúðarmála í heimabyggð.

Sigrún stofnaði Matargjafir ásamt Sunnu Ósk Jakobsdóttur fyrir áratug til að bæta úr sárri neyð í sinni heimabyggð og koma bágstöddum fjölskyldum til aðstoðar svo fólk gæti fætt börn sín og sig sjálft þegar fjárhagurinn ekki leyfði matarinnkaup.

„Þetta gekk þannig fyrir sig að fólk hafði samband við okkur til að fá aðstoð og við gengum út frá því að aðstoðin væri einstaklingsmiðuð og þá með þeim hætti að fólk þyrfti ekki að bíða í röðum eftir mat,“ útskýrir Sigrún.

Með matarkistur fyrir utan

Lagði hún heimili sitt undir en þangað kom fólk og sótti mat – allan sólarhringinn hvorki meira né minna. „Ég var með matarkistur fyrir utan sem fólk gat sett mat í eða tekið úr þeim,“ segir hún og bætir því við aðspurð að flestar matargjafirnar hafi komið frá einstaklingum, að minnsta kosti meginþorra ársins, fyrirtæki hafi hins vegar lagt sitt af mörkum fyrir jólahátíðina auk þess sem hún nefnir sérstaklega að Domino's hafi þó gefið gjafabréf á öðrum tímum ársins.

„Svo þegar þetta fór að verða meira fór ég að leggja inn á Bónuskort hjá fólki, beiðnirnar fóru mest upp í 230 á mánuði og þetta jókst mikið í covid, þá varð algjör sprenging,“ segir Sigrún sem nú er að draga sig út úr starfseminni og leitar að arftaka.

„Þetta er orðið það mikið núna að það er hreinlega ekki hægt að hafa þetta við heimili, það þarf að hafa sérstakt húsnæði og aðstöðu. Þetta gekk bara ekki lengur og svo var þetta auðvitað ofboðslegt álag á fjölskylduna,“ segir riddarakrosshafinn en álagið var þannig þegar mest var að Sigrún var vakin og sofin yfir endurröðun og pökkun í matarkisturnar.

Frískápar fengið lítinn hljómgrunn

„Maður var eiginlega aldrei í fríi,“ segir Sigrún sem komin er á annan vettvang eftir áratug í matargjöfum á Akureyri en hún hefur nú tekið sæti í stjórn Barnaheilla.

„Núna er ég að reyna að finna einhvern til að taka við þessu og svo er ég að reyna að fá fyrirtæki til að setja frískápa í hverfin,“ segir hún og bætir því við aðspurð að erindi hennar um frískápa, ísskápa sem fólk geti sótt sér mat í að kostnaðarlausu, hafi ekki hlotið góðan hljómgrunn hjá fyrirtækjum í bænum.

Hún kveður það ákaflega mikilvægt að starfsemi Matargjafa haldi áfram vegna þess hve mikil þörfin sé. „Það eru svo margir sem eru í þeirri stöðu að geta ekki mettað börnin sín,“ segir Sigrún og kveður þörfina í þjóðfélaginu stöðugt aukast. „Ég finn alveg sérstaklega fyrir því núna af því að fólk er að hafa samband og spyrja mig hvert það geti leitað,“ segir hún enn fremur.

Færð ekki vinnu sex tíma á dag

„Það hefur allt hækkað nema laun,“ segir Sigrún, innt eftir því hverja hún telji ástæðu þessarar sífelldu aukningar á þörf fyrir matargjafir, „þetta fyrirkomulag með að fólk fái frítt á leikskóla sex tíma á dag gengur bara ekkert. Þú færð ekki vinnu sex tíma á dag og ungt fólk á leigumarkaði með meðallaun er að borga brjálæðislegan pening í leigu. Það nær ekkert endum saman, það er bara þannig,“ segir Sigrún Steinarsdóttir Ellertsen sem í dag hlaut riddarakross úr hendi forseta Íslands fyrir starf sitt á sínu eigin heimili við að útvega bágstöddum mat síðasta áratuginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert