Segir ríkið standa í veginum

Kristrún Lind Birgisdóttir
Kristrún Lind Birgisdóttir

Kristrún Lind Birgisdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri skólaráðgjafarinnar Ásgarðs, segir ríkið standa í vegi fyrir skólaþróun á Íslandi.

Með því að halda áfram útgáfu á einsleitu kennsluefni verði staðan í skólum landsins ekki bætt. Kennarar þurfi á fjölbreyttari tækjum og tólum að halda en við því sé ekki brugðist.

Að hennar mati er umræðan um vanda í skólakerfinu ekki úr lausu lofti gripin en hyggilegra væri að gera eitthvað í málunum í stað þess að skamma kennara og setja nemendur á lyf. „Það er greinilegt að við erum ekki að gera nógu vel en það er hægt að snúa dæminu við,“ segir Kristrún og sjálf segist hún reyna að leggja sín lóð á vogarskálarnar.

„Ég rek skólaráðgjafaþjónustuna Ásgarð sem hjálpar sveitarfélögum við að innleiða menntastefnu ríkisins og við hjálpum þeim að laga til námskrárnar til að þær komi til móts við þarfir barnanna. Við höfum verið í þessu síðan 2017 og reynum að hjálpa kennurunum að breyta starfsháttum til að koma betur til móts við fjölbreyttar þarfir barna. Nemendahóparnir verða alltaf fjölbreyttari og fjölbreyttari en ekki einsleitari og einsleitari,“ og segir kennarana einfaldlega vanbúna til að takast á við fjölbreyttar þarfir nemenda.

„Við reynum að hjálpa þeim til þess að skólarnir geti kortlagt hvað þurfi að laga. Þegar okkur tekst að skilja betur í hvaða stöðu kennarinn er þá sjáum við að kennararnir og skólarnir eru svo vanbúnir til að koma til móts við fjölbreyttar þarfir nemenda. Þeir eru einnig vanbúnir til að innleiða aðferðir sem eru í samræmi við stefnu sem ríki og sveitarfélög setja.“

Kennararnir munu standa sig

Kristrún segir ekki vera samhljóm milli þeirra markmiða sem ríkið setur sér í skólamálum og þeirra aðferða sem menntamálayfirvöld beita.

„Árið 2017 byrjuðum við að benda menntamálastofnun á að þau séu ekki að gefa út efni fyrir skólana sem hjálpi þeim að taka upp starfshætti sem duga til að nemendur komi betur út úr PISA könnunum eða til að krakkar láti meira til sín taka. Kennararnir og skólarnir stóla á efni frá stofnuninni en fá áfram sama einsleita efnið. Við segjum að það verði að gefa út annars konar efni sem styður við markmiðin og það sem beðið er um. Ríkið stendur í vegi fyrir skólaþróun að þessu leyti. Ríkið eða menntamálastofnun líta ekki á það sem sitt hlutverk að hjálpa kennurunum. Hins vegar virðist mega að skamma kennarana og segja að þeir séu ómögulegir. Kennurunum er kennt um að íslensku krakkarnir koma illa út úr könnunum eða að strákarnir þrífist ekki í námi í stað þess að hjálpa þeim að sinna starfinu,“ segir Kristrún en hugmyndir sem Ásgarður vinnur með eiga sér fyrirmyndir víða erlendis.

Kristrún Lind Birgisdóttir stofnaði Ásgarð árið 2017 en hefur margvíslega …
Kristrún Lind Birgisdóttir stofnaði Ásgarð árið 2017 en hefur margvíslega reynslu úr skólakerfinu. mbl.is/Ásdís

„Við bjuggum til fyrirmyndar kennsluáætlanir og skipulag, á okkar kostnað, að beiðni kennarana og í samvinnu við þá. Kennslugögn sem styðja við það sem beðið er um. Þetta eru til dæmis áhugasviðs verkefni þar sem nemendur geta unnið verkefni tengd áhugamálum þannig að þau fái að skína. Þetta getur verið allt frá því að búa til myndbönd, fótboltablöð, gera rannsóknir eða útskýra flókin vandamál. Með árunum hefur safnið undið upp á sig.“ Segir hún að kennarar geti einbeitt sér að fleiri verkefnum þegar nemendur vinna að einhverju sem þeir hafa ástríðu fyrir.

„Í námsgagnasafni okkar eru rannsóknarleiðangrar fyrir börn sem eru drifnir áfram af áhuga. Það sparar kennurum vinnu, eykur áhuga nemenda og verður til þess að við náum betri árangri. Við höfum sem dæmi skrifað heilsárs áætlun fyrir ritun hvern einasta kennsludag fyrir 4., 7. og 10. bekk. Þetta getur hvaða kennari sem er nýtt sér og foreldrarnir í rauninni líka en kennararnir fá aldrei neitt þessu líkt frá menntamálastofnun. Þegar kennarar fá aðstoð þá eru þeir svo fljótir að gera virkilega vel. Það mun enginn laga stöðuna í skólakerfinu aðrir en kennararnir og þess vegna vil ég sjá fjármagnið fara í að hjálpa kennurum í stað þess að greina nemendur út úr kerfinu með læknisfræðilegum greiningum og lyfjum.“

Gefur eigið námsefni

Kristrún Lind hefur tekið ákvörðun um að opna gagnasafn Ásgarðs og fyrir vikið verður það opið kennurum en einnig foreldrum sem geta nýtt það að vild.

„Við ætluðum bara að gera þetta fyrir okkar viðskiptavini en settum efnið inn á lokað námsumsjónarkerfi [askurinn.net.] Skólarnir geta nýtt það til að meta nemendur en það dugir ekki til. Kennara vantar betri stuðning alls staðar í öllum skólum hvort sem við hjálpum eða ekki. Þeir hafa ekki tíma til að finna upp hjólið og útbúa efni sem þetta. Þess vegna ætlum við að opna allt safnið á léninu namsgagnatorgid.is og þar eru yfir 3 þúsund verkefni sem orðið hafa til frá 2017. Þarna eru risastór verkefni eins og nýsköpun til að þróa vörur, læra rússnesku, kenna að setja á neglur eða búa til hrollvekju fyrir hrekkjavöku. Þetta eru ýmis konar áhugasviðs verkefni sem tengjast samt inn í grunnþætti menntunar og gefa krökkunum kost á að persónumiða námið að sér. Ungir krakkar í dag hafa miklar skoðanir og hafa þekkingu á alls kyns hlutum. Þar af leiðandi er flókið að búa til námsefni sem samræmast þeim kröfum sem ríkið fer fram á. Í rauninni þurfa kennarar, nemendur og foreldrar að hjálpast að við það,“ segir Kristrún og neitar því ekki að fólk undrist að hún ætli að gefið efnið.

Hvað með viðskiptamódelið?

„Fólk í kringum mig spyr mig hvort ég sé galinn. Hvort ég ætli virkilega að gefa allt efnið. Hvað með viðskiptamódelið? Ég bendi á móti á að markmið okkar hjá Ásgarði er að hjálpa sveitarfélögum, skólastjórum, kennurum, nemendum og foreldrum að gera skólana okkar geggjaða. Hvað þarf til þess? Kennarar þurfa tæki og tól til að búa til skapandi og skemmtilegt skólastarf sem þeir vita að stenst kröfur. Við þurfum öll að vita hvað þetta er og nú geta foreldrar einnig kynnt sér þetta á namsgagnatorgid.is. Þar blasa við alls kyns skemmtilegar leiðir til að læra í nútíma samfélagi. Ég trúi því að það verði alltaf nóg að gera hjá okkur en ég vil opna safnið til að við getum náð því markmiði að gera skólana betri.“

Kristrún og sér ekki fyrir sér að sömu gömlu prófin leysi vandann sem við er að glíma.

„Það lagast ekkert með því að leggja eingöngu fyrir samræmd próf. Það lagast ekkert með því að tala bara um að drengir þurfi meiri hjálp eða hversu illa íslenskir krakkar komi út í könnunum. Það tala hins vegar fáir um hvað þurfi að gera til að snúa þessari þróun við. Það þýðir ekki að halda endalaust áfram að sjúkdómsvæða börn og búa til fleiri kerfi sem aðgreina börnin. Ef við lögum sjálfa námskrána, og það sem við gerum frá degi til dags, þá er hægt að laga stöðuna. Þetta á að vera skemmtilegt og skapandi með fjölbreyttum verkefnum. Það er góður skóli.“

Viðtalið birtist í Morgunblaðinu síðasta fimmtudag. Í blaðinu á laugardaginn tóku Ásmundur Einar Daðason menntamálaráðherra og Þórdís Jóna Sigurðardóttir forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu undir margt af því sem Kristrún segir í viðtalinu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert