Stefnt verður að opnun Kringlunnar á morgun í kjölfar þess að loka þurfti húsnæðinu eftir eldsvoða í þaki hússins á laugardaginn. Guðni Aðalsteinsson, stjórnarformaður Kringlunnar, segir að nú komi til með að reyna á tryggingar verslanaeigenda og húsnæðisins og að verr hefði getað farið en raun ber vitni: „Þetta hefði getað farið verr og við erum mjög þakklát fyrir að það hafi ekki verið nein slys á fólki og ég vil koma á framfæri þökkum til þeirra sem komu að þessu máli,“ segir Guðni.
Hann staðfestir að verktakar hafi verið að störfum á þaki Kringlunnar og segir að eldur hafi komið upp þegar verið var að leggja þakpappa á austurhluta þaksins. Eldurinn hafi síðan leitað til suðurhluta þaksins.
Hann segir líklega tíu verslanir hafa orðið fyrir altjóni og að þær hafi allar verið á sama stað í húsinu.
Svava Johansen, eigandi og forstjóri NTC, sagði tjónið gríðarlegt í versluninni Gallerí 17 og að loftið hefði verið að hruni komið, í samtali við Morgunblaðið í gær. Einnig urðu verslanirnar Kultur, Kultur menn og GS skór fyrir verulegu tjóni, en allar eru þær reknar á vegum NTC.
Guðni segir að nú reyni á brunatryggingar húsnæðisins hjá Sjóvá: „Brunatryggingar eru auðvitað á ábyrgð leigusalans, sem er við í Reitum, en svo eru verslanir með eigin tryggingar, hvort sem það eru rekstrarstöðvunartryggingar eða á lager.“
Farið verður í allsherjarendurbætur á þeim rýmum sem komu verst út úr brunanum og hugsanlega verður farið í þær með breytta og nýja ásýnd í huga. Hann telur að endurbæturnar gætu tekið um tvo til þrjá mánuði.
Að öllu óbreyttu verður Kringlan opnuð að nýju á morgun og hann bendir á að einungis hluti húsnæðisins hafi farið mjög illa út úr eldinum: „Restin er á fullri ferð áfram og þetta eru ekkert endalok Kringlunnar.“