Krafði Willum svara um meðgönguorlof

Jóhann Páll krafði Willum Þór svara um afstöðu sína gagnvart …
Jóhann Páll krafði Willum Þór svara um afstöðu sína gagnvart meðgönguorlofi. Samsett mynd

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spyr hvar jafnréttið sé í því að konur þurfi að ganga á veikindarétt sinn undir lok meðgöngu. Hann fer fram á að lögfest verði sérstakt meðgönguorlof sem hefst fjórum vikum fyrir settan dag. 

Þetta kemur fram í fyrirspurn Jóhanns sem beindist að Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. 

Mikilvægt heilbrigðismál 

Í fyrirspurn sinni vék Jóhann að frumvarpi sem lagt hefur verið fram af Samfylkingunni og fjallað hefur verið um í velferðarnefnd.

Um er að ræða frumvarp þar sem lagt er til að lögfest verði sérstakt meðgönguorlof sem felur í sér að móðir, eða það foreldri sem gengur með barnið, geti byrjað í fæðingarorlofi á 36. viku meðgöngu án þess að sá tími komi til frádráttar fæðingarorlofi eftir að barn fæðist. 

Jóhann segir þetta svipa til þess sem þekkist í Noregi og Danmörku. Auk þess sem um sé að ræða breytingu sem Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, Félag heimilislækna og Ljósmæðrafélag Íslands hafa kallað eftir.

„Þetta er mikilvægt heilbrigðismál því almennt er konum ráðið frá því að vera að vinna mikið lengur en fram á 36. viku.“

Tilbúinn að skoða jafnréttisvinkilinn

„Hvar er jafnréttið í því að konur þurfi að ganga á veikindarétt sinn á meðan karlar þyrftu aldrei að gera það? Hvar er jafnréttið í því? Vill hæstvirtur heilbrigðisráðherra bara hafa þetta svona áfram eða er ráðherra sammála þessum heilbrigðisstéttum sem ég nefndi hér áðan? Og er ráðherra sammála okkur í Samfylkingunni um að lögfesta þurfi sérstakt meðgönguorlof síðustu fjórar vikurnar fyrir settan dag?“ spurði Jóhann Willum þegar hann hafði farið yfir mál sitt. 

Willum þakkaði Jóhanni fyrir að vekja athygli á málinu en kvaðst ekki hafa sett sig nákvæmlega inn í það hvar málið væri statt. Sagðist hann þó sannarlega tilbúinn að skoða umræddan jafnréttisvinkil. 

„Ég skal sannarlega skoða jafnréttisvinkillinn á því máli sem hæstvirtur þingmaður varpar hér fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert