Vísar gagnrýni Þorbjargar á bug

Þorbjörg og Guðmundur Árni á samsettri mynd.
Þorbjörg og Guðmundur Árni á samsettri mynd. Samsett mynd

Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar, vísar gagnrýni Þorbjargar Þorvaldsdóttur, oddvita Garðabæjarlistans, á bug í samtali við Morgunblaðið.

Þorbjörg hefur gengið úr flokknum þar sem hún fellir sig ekki við að þingflokkur Samfylkingarinnar hafi setið hjá í atkvæðagreiðslu um útlendingafrumvarpið sem var samþykkt hinn 14. júní.

Hún mun áfram sitja í bæjarstjórn.

Guðmundur Árni ítrekar að Samfylkingin hafi ávallt í gegnum sögu flokksins staðið fyrir mannréttindum og lýðræði á Íslandi og geri það enn.

„Varðandi afstöðu þingmanna flokksins til útlendingafrumvarpsins þá ber að geta þess að við lögðum fram breytingar við 2. umræðu, meðal annars um fjölskyldusameiningu, sem meirihlutinn felldi,“ segir hann.

„Í frumvarpinu voru atriði til bóta eins og skemmri afgreiðslufrestur við hælisleitendur sem er þeim og íslensku samfélagi til hagsbóta og styðjum við það.“

Guðmundur Árni bætir við að þegar málið allt hafi verið skoðað í heild hafi sú afstaða þingflokksins orðið ofan á að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna frekar en að greiða atkvæði á móti því.

„En kjarni málsins er að Samfylkingin tekur afstöðu til allra mála á þeim forsendum að við ætlum að iðka það sem við segjum og ekki bara vera með upphrópanir og andstöðu verandi í minnihluta, því við erum að búa okkur undir það að taka við landsstjórninni,“ segir Guðmundur Árni.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert