2.000 á biðlista eftir heyrnarþjónustu

Yfir 200 börn eru á biðlista.
Yfir 200 börn eru á biðlista. mbl.is/Ásdís

2.028 manns eru skráð á biðlista eftir heyrnarþjónustu frá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Rúmlega helmingur þeirra sem eru á biðlista bíður að meðaltali í tvö ár eftir þjónustu.

Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Biðtími er mismunandi eftir þjónustu en mestur er biðtíminn hjá fullorðnum einstaklingum sem þurfa þjónustu vegna heyrnartækja og mælinga. 1.155 eru á biðlista eftir þeirri þjónustu og er biðtími þar að meðaltali tvö ár.

Yfir 200 börn á biðlista

Þar á eftir eru 380 fullorðnir á biðlista eftir fyrstu komu mælingu. Biðtími þeirra er að meðaltali sjö mánuðir. 177 manns eru á biðlista sem þurfa aðstoð við heyrnartæki og er meðalbiðtími þeirra 1-2 mánuðir.

134 börn á aldrinum 0-3 ára eru á biðlista eftir barnamælingum og er meðalbiðtími þeirra þrír mánuðir. Álíka biðtími er hjá börnum eldri en fjögurra ára og eru 75 börn á þeim biðlista.

„Farið var í átak í barnamælingum fyrir 0–3 ára og með því styttist biðlistinn úr fimm mánuðum í þrjá mánuði frá nóvember sl. fram í miðjan mars á þessu ári og á sama tíma fór biðtími eftir vali á tækjum úr fimm mánuðum í um fjóra mánuði,“ segir í svari Willums. 

107 manns eru á biðlista eftir vali á tækjum og er sá biðtími að meðaltali fjórir mánuðir. Tölurnar eru byggðar á svörum frá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands frá því í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert