Boðar átak í markaðssetningu til ferðamanna

Lilja boðar átak í markaðssetningu til að laða að fleiri …
Lilja boðar átak í markaðssetningu til að laða að fleiri ferðamenn til landsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, boðar átak í neytendamarkaðssetningu fyrir ferðamenn. Kostnaðurinn mun hlaupa á hundruðum milljóna króna.

Þetta segir hún í samtali við mbl.is.

„Ég er komin með tillögu þess efnis að það verði átak sem einblínir á neytendamarkaðssetningu til þess að fara yfir þá stöðu sem er uppi varðandi jarðhræringar því eitthvað hefur borið á því að væntanlegir gestir okkar hafi haft áhyggjur af því að þeir komist ekki frá landinu vegna jarðhræringa.“

Ferðamála­stofa hef­ur upp­fært spá sína um fjölda ferðamanna sem áætlað er að muni koma til lands­ins á ár­un­um 2024 til 2026. Upp­færð spá ger­ir ráð fyr­ir færri ferðamönn­um en lagt var upp með í árs­byrj­un.

Vill sjá markaðssetninguna hefjast fljótlega

Miklar áhyggjur eru uppi í ferðaþjónustunni vegna þess fjölda ferðamanna sem komið hafa til landsins á árinu, en sá fjöldi hefur ekki staðið undir væntingum.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa bent á að umfjöllun erlendra fjölmiðla um jarðhræringar hafi haft sitt að segja.

Lilja segir tillöguna liggja fyrir ríkisfjármálanefnd en hún kveðst hafa verið að vinna síðustu þrjá mánuði, ásamt Ferðamálastofu og Íslandsstofu, að þessu verkefni. Hún vonast til þess að markaðssetningin hefjist sem fyrst.

„Ég myndi vilja sjá þetta fara af stað fljótlega,“ segir Lilja.

Ísland ekki markaðssett jafn mikið og önnur ríki

Að sögn Lilju ver Ísland minni fjármunum í erlenda markaðssetningu samanborið við samkeppnisríki okkar á borð við Noreg, Írland og Finnland.

„Í öðru lagi erum við búin að vera að fara yfir hversu oft er leitað að Íslandi og við sjáum að núna síðustu mánuði hefur það minnkað talsvert.

Þannig við með Íslandsstofu og Ferðamálastofu erum mjög meðvituð um það nákvæmlega hvað er að gerast.“

Áhrif verðlags og jarðhræringa ekki vitað nákvæmlega

Hún segir erfitt að meta hversu mikil áhrif jarðhræringarnar annars vegar og hátt verðlag hins vegar hafi á dvínandi áhuga ferðamanna á Íslandi.

„En það sem við vitum að þegar fólk leitar ekki – setur þá frekar Noreg eða Finnland – þá er það vegna þess að það skýtur frekar upp í huga þeirra, þessi lönd, af því að þau eru búin að fara í margfalda neytendamarkaðssetningu á við okkur.

Við erum ekki að gera þetta eins, neytendamarkaðssetning í ferðaþjónustu skilar sér. Það er bara þannig.“

Hleypur á hundruðum milljóna

Hversu háa upphæð erum við að tala um í markaðssetningu?

„Þetta er markaðssetning sem hleypur á hundruðum milljóna,“ segir Lilja.

Hún segir að Ísland hafi á Covid-tímabilinu sett allt að 2 milljarða króna í markaðssetningu og það hafi augljóslega skilað sér í auknum ferðamannastraumi.

„Við jukum við okkur um 15% á meðan það var samdráttur um 10-15% í Noregi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert