Íbúðaverð hækki umfram almennt verðlag

Íbúðaverði um land allt fer hækkandi og eftirspurnin er mikil.
Íbúðaverði um land allt fer hækkandi og eftirspurnin er mikil. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er ólíklegt að íbúðaverð hækki þó nokkuð á þessu ári og jafnvel umfram almennt verðlag. Mikil eftirspurn er eftir íbúðum þrátt fyrir hátt vaxtastig en að baki hækkandi verði og aukinni veltu er talið að rýming Grindavíkur, væntingar um vaxtalækkanir og þörf á húsnæði spili stórt hlutverk.

Kemur þetta fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Þar segir að kaupsamningum hafi fjölgað verulega miðað við sama tíma í fyrra en voru um 150% fleiri kaupsamningar undirritaðir á höfuðborgarsvæðinu í maí í ár miðað við í fyrra.  

„Eftir samfellda fækkun á milli ára frá miðju ári 2021 tók kaupsamningum að fjölga aftur síðastliðið haust,“ segir í tilkynningunni.

Hækkun upp á 8,4%

Segir í tilkynningunni að íbúðarverð hafi hækkað um 8,4% um landið allt á síðustu tólf mánuðum. Sé það nokkuð meiri hækkun en hækkun á verðlagi í landinu öllu sem er 6,2%.

Þar kemur einnig fram að vísitala íbúðaverðs hafi hækkað um 1,4% á milli mánaða í maí og er þetta hækkun fjórða mánuðinn í röð.

„Nýrri vísitölu íbúðaverðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er skipt bæði eftir tegundum húsnæðis, þ.e. fjölbýli eða sérbýli og staðsetningu, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. Í maí hækkaði íbúðaverð um 1,8% á landsbyggðinni en um 1,2% á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í tilkynningunni.

Verðtryggð lántaka vinsælust

Tekið er fram að verðtryggð lántaka sé orðinn áberandi í samfélaginu. Tóku vinsældir verðtryggðra lána að aukast við upphaf síðasta árs „þegar vaxtastig var farið að hafa veruleg áhrif á afborganir af óverðtryggðum lánum.“

Séu þá verðtryggð lán á breytilegum vöxtum langvinsælustu á meðal kaupenda – þó einhverjir virðast enn festa vexti á nýjum verðtryggðum lánum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert