Óvenjumargir í Grindavík um helgina

Myndin sýnir Grindavík þann 30. maí, degi eftir að síðasta …
Myndin sýnir Grindavík þann 30. maí, degi eftir að síðasta eldgos hófst. Ljósmynd/Otti Rafn Sigmarsson

Dvalið var í hátt í 60 húsum í Grindavíkurbæ um helgina, sem telst óvenjumikið.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir við mbl.is að frá því að jarðhræringar hófust hefur fólk yfirleitt dvalið í um 20-25 húsum í Grindavík, að undanskildum þeim tilfellum þar sem rýma hefur þurft bæinn.

„Það er nú misjafnt eftir dögum og ástandinu í bænum að hverju sinni hversu margir hafa aðsetur yfir nótt. Núna um helgina var sofið í milli 60 húsum, sem er með því mesta sem hefur verið upp á síðkastið,“ segir Fannar við mbl.is.

Hann tekur fram að vindátt og gasmengun stýri að miklu leyti hversu margir dvelja í bænum.

Enn starfsemi hjá fiskfyrirtækjum

Það voru því óvenjumargir Grindvíkingar í heimabænum um helgina en þó eru hátt í 1.200 húsnæðiseiningar í bænum öllum.

Enn er einhver starfsemi í bænum, þó aðallega hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum Vísi, Einhamri og Þorbirni. En þar sem annar iðnaður reiði sig á að íbúar og ferðamenn eru í bænum eru aðeins um eitt eða tvö veitingahús opin í bænum.

Fasteignafélaginu Þórkötlu, sem tekur að sér uppkaup á húsnæði Grindvíkinga, hefur nú borist yfir 800 umsóknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert