Vilja ná eyrum ferðafólks um mikilvægi jafnréttis

Norazman Chung, framkvæmdastjóri Iceland Hotel Collection by Berjaya, og Stella …
Norazman Chung, framkvæmdastjóri Iceland Hotel Collection by Berjaya, og Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, undirrituðu samstarfssamninginn. Ljósmynd/UN Women

UN Women á Íslandi og Iceland Hotel Collection by Berjaya hafa tekið höndum saman og gert með sér samstarfssamning til þriggja ára með það að markmiði að stuðla að menningu jafnréttis innan hótelkeðjunnar Iceland Hotel Collection by Berjaya og að afla fjár til verkefna UN Women á heimsvísu.

Megintilgangur samstarfsins er að hafa áhrif á framþróun jafnréttismála á heimsvísu sem og innanlands. Ísland er í fararbroddi í jafnréttismálum í heiminum og er mikil fyrirmynd annarra þjóða hvað þessi mál varðar, segir í tilkynningu frá UN Women.

Jafnrétti grundvallarmannréttindi á Íslandi 

Í tilkynningunni segir jafnframt að íslenskt samfélag líti á jafnrétti sem grundvallarmannréttindi og forsendu velmegunar, framfara og þróunar. Framfarir í jafnréttismálum séu því miður hægar á heimsvísu og í kjölfar COVID-19 og aukinna átaka í heiminum hafi orðið mikið bakslag í málaflokknum. Samkvæmt nýlegum rannsóknum mun það taka 300 ár að ná fullu kynjajafnrétti í heiminum.

Ferðaþjónustan á Íslandi hefur öðlast aukið mikilvægi síðustu ár og hefur fjöldi ferðafólks sem sækir Ísland heim aldrei verið meiri. Því fylgir ábyrgð að vera fremst á meðal þjóða í kynjajafnrétti og með sameiginlegu átaki ætla UN Women á Íslandi og Iceland Hotel Collection by Berjaya að ná eyrum ferðafólks um mikilvægi jafnréttismála, segir í tilkynningunni. 

„Hótelkeðjan býður viðskiptavinum sínum að styðja við starf UN Women á Íslandi í gegnum bókunarvél á netinu sem og í gestamóttökum hótelanna. Einnig verður varningur samtakanna seldur í verslunum hótelanna.“

Auka jafnframt kynjajafnrétti á vinnustaðnum 

Samhliða þessu hefur Iceland Hotel Collection by Berjaya undirritað Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact sem er alþjóðleg yfirlýsing og samkomulag á vegum Sameinuðu þjóðanna sem snýr að því að auka kynjajafnrétti á vinnustöðum.

Í tengslum við Jafnréttissáttmálann mun UN Women á Íslandi koma að áframhaldandi fræðslu fyrir starfsfólk og stjórnendur Iceland Collection by Berjaya um jafnréttismál og tengd málefni en hjá félaginu er unnið öflugt fræðslustarf í málaflokknum. Þetta kemur fram í tilkynningunni.

Tilraunaverkefni sem felur í sér mörg tækifæri 

„Við erum stolt af því að UN Women hafi leitað til okkar með ósk um samstarf. Iceland Hotel Collection by Berjaya er í forystu hvað varðar jafnrétti kynjanna en það er vissulega alltaf hægt að gera betur. Í samstarfinu felst að vekja athygli gesta á jafnréttismálum og á því hvernig þeir geta lagt sitt af mörkum við framþróun jafnréttis í heiminum. Við hlökkum til samstarfsins við UN Women og til þess að leggja þessum mikilvæga málstað lið,“ er haft eftir Norazman Chung, framkvæmdastjóra Iceland Hotel Collection by Berjaya, í tilkynningunni.

„Við hjá UN Women á Íslandi erum ótrúlega spennt fyrir samstarfinu við Iceland Hotel Collection by Berjaya. Samstarfið er tilraunaverkefni (pilot) fyrir UN Women á heimsvísu og felur í sér gríðarlega mörg tækifæri sem við erum spennt að sjá raungerast á næstu árum. Við erum svo innilega þakklát Iceland Hotel Collection by Berjaya fyrir að vera tilbúið að fara með okkur í þessa spennandi vegferð og hafa þannig áhrif á jafnréttismál bæði innanlands sem og fiðrildaáhrif út í heim,“ er haft eftir Stellu Samúelsdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi, í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert