Ekki hægt að lifa á fornri frægð

Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir að nánast ekkert hafi verið gert …
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir að nánast ekkert hafi verið gert í markaðssetningu Íslands sem vörumerkis síðan 2022. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir skynsamlegt að ríkið komi að borðinu í markaðssetningu á Íslandi til ferðamanna.

Hann segir samdrátt í ferðaþjónustunni enda á niðurskurði á öllum sviðum samfélagsins og að ekki sé hægt að lifa á fornri frægð heldur þurfi stöðugt að minna á sig. 

Þetta segir Pétur Óskarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is, þar sem hann fagnar boðuðu átaki Lilju Daggar Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, í neytendamarkaðssetningu til ferðamanna.

Pétur segir það mögulega koma spánskt fyrir sjónir að samtök …
Pétur segir það mögulega koma spánskt fyrir sjónir að samtök atvinnurekenda fari fram á aukin ríkisútgjöld. Ljósmynd/Aðsend

Ísland dalað samanborið við nágrannalönd

„Við fögnum þessu mjög og erum ánægð með þetta og fyrirtæki í greininni bíða spennt eftir að geta fylgt þessu að með eigin söluaðgerðum. Þetta mun þegar upp er staðið koma öllum til góðs, síðast en ekki síst ríkissjóði,“ segir Pétur. 

Hann segir aðila innan ferðaþjónustunnar sjá markaðsetningu landsins skiptast aðallega í tvennt. Annars vegar eru það fyrirtæki innan geirans sem reyna að koma sér á framfæri á markaði og hins vegar er það markaðssetning landsins sem hann segir í höndum ríkisstjórnarinnar:

„Markaðssetning landa er í höndum ríkisstjórnar í löndunum í kringum okkur og síðan 2022 hefur ríkisstjórnin ekki lagt pening í markaðssetningu á Íslandi sem vörumerki.“

Hann segir Ísland dala í þessum efnum á sama tíma og önnur lönd sækja á:

„Það var farið í átak í upphafi Covid, sem hét saman í sókn sem heppnaðist mjög vel, en því lauk 2022 og hefur eiginlega ekkert verið gert síðan í þessari markaðssetningu.“

Færri leita að Íslandi á leitarvélum en áður.
Færri leita að Íslandi á leitarvélum en áður. mbl.is/Eyþór

Færri ferðamenn á við loðnubrest

Pétur játar að það komi spánskt fyrir sjónir að samtök atvinnurekenda fari fram á aukin ríkisútgjöld, en vísar til skoðanagreinar sem hann skrifaði fyrir ViðskiptaMoggann í gær.

Meðal röksemdafærsla í greininni er að ríkissjóður komi til með að græða mest á auknum straumi ferðamanna og að samdráttur í greininni komi til með að setja nýsamþykkta fjármálaáætlun í uppnám og endi á niðurskurði á öllum sviðum samfélagsins.

„Það hefur nú verið sagt að 100 þúsund færri ferðamenn séu eins og einn loðnubrestur fyrir ríkissjóð,“ segir hann.

Hann vísar enn fremur til talna frá Ferðamálastofnun Evrópusambandsins (ETC) sem gefa til kynna að á sama tíma og Ísland fór að draga úr markaðssetningu árið 2022 hafi nágrannalönd gefið í.

Boðað átak í neytendamarkaðssetningu Ísland kom frá menningar- og viðskiptaráðherra …
Boðað átak í neytendamarkaðssetningu Ísland kom frá menningar- og viðskiptaráðherra eftir samráð við Íslandsstofu og Ferðamálastofu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samdráttur í leitarvélum

Spurður hvort að ákall um frekari fjárfestingar ríkisins í markaðssetningu Íslands hafi komið frá Samtökum ferðaþjónustunnar, segir Pétur að ákallið hafi komið frá Lilju eftir samráð við Íslandsstofu og Ferðamálastofu.

„Markaðssetning á vörumerkinu Ísland margborgar sig og hún þarf helst að vera stöðug. Það sem ég myndi vilja sjá er að þetta verði hluti af fjárlögum hvers árs. Það er alltaf heldur dýrt að stoppa,“ segir hann og bendir á að einhver stærstu vörumerki heims haldi jafnt og þétt áfram að minna á sig:

„Það er ástæða fyrir því að Pepsi og Coca-Cola, þó svo að þau séu mjög þekkt, halda áfram að minna á sig. Þú lifir ekki á fornri frægð á neytendamarkaði. Þú verður alltaf að vera að minna á þig.“

Í því samhengi nefnir hann mikinn samdrátt á leit að Íslandi hjá leitarvélum á borð við Google, sem stafræna markaðs- og ráðgjafafyrirtækið Datera hefur bent á.
„Það eru varúðarmerki og meira segja Seðlabanki Íslands hefur bent á það, að það sé fylgni milli tekna í ferðaþjónustu og leitar að Íslandi á Google.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert