Kári Freyr Kristinsson
„Við sluppum við vatnstjón en það kom mikill reykur hér inn svo við þurftum að taka allar vörur héðan út,“ segir Elín Tinna Logadóttir framkvæmdastjóri Útilífs í samtali við blaðamann mbl.is í Kringlunni fyrr í dag.
Kringlan var opnuð fyrst í dag eftir bruna sem braust út í þaki Kringlunnar á laugardag.
„Við erum bara að vinna núna að því að undirbúa verslunina og opna hana aftur,“ segir Elín. Nú sé verið að þrífa og mála verslunina.
Útilíf gat ekki opnað verslun sína í Kringlunni í dag vegna þess að nánast allar vörurnar í versluninni skemmdust vegna reyksins sem kom frá brunanum. Elín segir muna um að Útilíf hafi aðrar verslanir og netverslanir á þessum tímum.
„Við vonumst eftir að geta tekið á móti viðskiptavinum í Kringlunni strax eftir helgi,“ segir Elín. Unnið sé daga og nætur til þess að gera verslunina hæfa til að taka á móti gestum.
Aðspurð segir hún reykinn að mestu hafa haft áhrif í verslun, lagerinn hafi sloppið en stór hluti varnings hafi einnig farið forgörðum.
„Það er ótrúlega sárt og blóðugt og óumhverfisvænt að þurfa að farga varningi sem varð fyrir reykskemmdum,“ segir Elín en að vonandi sleppi eitthvað af lagernum.
„Þetta er heilmikið tjón og mikil vinna fram undan,“ segir hún, en Kringlan hafi unnið góða vinnu í að koma verslunarmiðstöðinni í eðlilegra horf.