Gæti orðið viðvarandi kuldi fyrir austan í sumar

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Kuldinn í sjónum gæti orðið viðvarandi á Austurlandi í allt sumar en sjávarhitinn hefur mikil áhrif á lofthitann.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Hann segir talsverðan sjávarkulda hafa verið fyrir austan land og aðeins hafi lítillega hlýnað á þeim slóðum í vor. Þessi kalda tunga tengist hafstraumi úr norðvestri sem kallast Austur-Íslandsstraumur.

„Fyrir austan koma því hlýir dagar á næstunni aðeins þegar sunnan og suðvestanáttin verður það ákveðin að hún nái að bægja kalda loftinu yfir sjónum úti fyrir frá.  En austan- og norðaustanátt eru vissulega algengustu vindáttirnar,” segir Einar.

„Kuldann í sjónum nú má m.a. rekja til meiri hafíss og útbreiðslu pólsjávar djúpt norður af landinu í vetur og reynslan hér áður fyrr á árunum, segir okkur að kuldinn í sjónum gæti orðið viðvarandi á Austurlandi í allt sumar. Þó dregur vissulega smám saman úr mesta kuldanum þegar sólin nær að hita yfirborðslagið.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert