Kringlan opin á ný: „Í dag er ég í skýjunum“

Baldvina Snælaugsdóttir markaðsstjóri Kringlunnar.
Baldvina Snælaugsdóttir markaðsstjóri Kringlunnar. Eyþór Árnason

„Maður er í stanslausum tilfinningarússíbana. Núna er ég bara alveg ótrúlega glöð og þakklát. Ég myndi segja að það væri búið að lyfta grettistaki, bara á fimm dögum,“ sagði Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar, í morgun er Kringlan opnaði á nýjan leik.

Húsið hafði verið lokað síðustu fimm daga vegna eldsvoða sem þar kom upp, en miklar vatns- og reykskemmdir höfðu orðið inni í húsnæðinu. Hafa síðustu dagar farið í þrif og hreinsun og undirbúning fyrir opnun. 

„Þetta leit vægast sagt illa út hérna fyrst, náttúrulega mikið vatn og reykur sem kom í húsið, en að það skuli hafa tekist að hreinsa svona vel, taka burt allt sem lyktar og allt sem er ónýtt,“ sagði Baldvina og bætti við.

„Það eru bara allir búnir að leggjast á eitt þannig að í dag er ég í skýjunum.“ 

Kringlan í dag.
Kringlan í dag. Eyþór Árnason

Trúði alltaf að húsið myndi opna í dag

Mikil vinna hafði farið í hreingerningar og stóð upprunalega til að húsið myndi opna á þriðjudag.

„En það voru þessi loftgæði og þessi lykt og allt þetta skemmda efni sem hafði ekki náðst að koma í burtu þannig að við frestuðum um tvo daga.“

Sagðist Baldvina alltaf hafa haft trú á að húsið myndi opna í dag. Fundur hafi verið haldinn með kaupmönnum í gær þar sem ríkt hafi mikil ánægja með hversu vel og fljótlega hafi tekist að opna á nýjan leik. 

Allir með bros á vör

Fínasta mæting var í Kringluna þegar húsið opnaði dyr sínar á ný í morgun, bæði í þær verslanir sem gátu opnað og einnig á kaffihúsin.

„Við eigum svona okkar föstu hópa, eins og fólkið sem hittist á hverjum einasta morgni á kaffihúsinu. Það er búið að taka gleði sína í dag að geta hist aftur á uppáhaldsstaðnum sínum,“ sagði Baldvina og bætti þá við:

„Mér sýnist viðskiptavinir vera með bros á vör hérna í húsinu – eins og við.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert