Nýttu tímann í allsherjarþrif

Telma Jóhannsdóttir, starfsmaður World Class í Kringlunni.
Telma Jóhannsdóttir, starfsmaður World Class í Kringlunni. Eyþór Árnason

Líkamsræktarunnendur sem búa í nágrenni Kringlunnar geta tekið gleði sína á ný eftir að World Class opnaði þar aftur í dag.

Greint hefur verið frá að Kringlan opnaði dyrnar sínar fyrir gestum í dag eftir fimm daga lokun. Húsnæðið hafði verið lokað vegna eldsvoða sem þar kom upp síðastliðinn laugardag.

Í fyrstu var World Class stöðin opin í hálfan dag eftir eldsvoðann – en var svo tekin ákvörðun um að loka stöðinni á meðan hreingerningar í húsinu færu fram.

Tóku alla stöðina í gegn

Telma Jóhannsdóttir, starfsmaður World Class, segir ekkert hafa skemmst í salnum og hafi því starfsfólk nýtt lokunina til að taka allsherjarþrif á svæðinu.

„Við nýttum bara dagana til að þrífa stöðina alveg. Þær sem voru á vakt – þær fengu bara að koma og nýta vaktartímann og við þrifum bara gjörsamlega alla stöðina og tókum í gegn,“ sagði Telma í samtali við blaðamann í morgun.

Aðspurð segir Telma stöðina hafa opnað klukkan sex í morgun og allt sé nú komið í eðlilegt ástand á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert