„Það sem við gerðum var rétt og virkaði“

Slökkviliðsmenn að störfum á Tálknafirði í gær.
Slökkviliðsmenn að störfum á Tálknafirði í gær. mbl.is

„Það var ekki fyrr en í morgun að við fengum það staðfest að það sem við gerðum var rétt og virkaði.”

Þetta segir Davíð Rúnar Gunnarsson, slökkviliðsstjóri í Vesturbyggð, en slökkviliðið einangraði ammoníakslekann sem kom upp í fyrrinótt niður í eina vél seinnipartinn í gær og tappaði þrýstingnum af.

Því er orðið ljóst að komist hefur verið fyrir lekann. Enn er þó ammoníakslykt í vélasalnum. Hún mun þó hverfa smám saman.

Húsið er orðið öruggt og geta því allir gengið þar um, líka í vélaherberginu. Enginn frá slökkviliðinu vaktar nú húsið en það var annars vaktað í nótt.

Fyrirtækið sem nýtir frystana í húsinu, Klofningur, ætlar að fá iðnaðarmenn til að gera við lekann í dag og koma þrýstikerfinu aftur á. Reynt verður að bjarga afurðum sem fyrirtækið á í frysti, að sögn Davíðs Rúnar.

Eigandi hússins er annars Nordic Fish Leather, sem býr til vörur úr fiskiroði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert