„Þeim finnst þetta svo ómerkileg fötlun“

Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, segir stjórnvöld ekki …
Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, segir stjórnvöld ekki hafa neinar afsakanir lengur. Samsett mynd/Heyrnar- og talmeinastöð Íslands/Ásdís

Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, segir biðlista stofnunarinnar ekki nýja af nálinni. Um sé að ræða vanda sem megi rekja aftur til hruns bankakerfisins og ekki sjái fyrir endann á. Sér í lagi verði fjárhagsáætlun ríkisins til næstu fimm ára verður samþykkt. 

„Endalaus niðurskurður og fjársvelti, aðstöðuleysi og mannekla hefur leitt til þess að opinber heyrnarþjónusta er komin í stórkostlegar ógöngur. Biðlistar hafa haldið áfram að hlaðast upp og yfirvöld gera nánast ekki neitt annað en að ýta vandanum á undan sér og sífellt reyna að finna einhverjar lausnir, aðrar en að bæta í.“

mbl.is greindi frá því í gær að 2.028 manns væru skráðir á biðlista eftir heyrnarþjónustu frá Heyrn­ar- og tal­meina­stöð Íslands og að rúm­lega helm­ing­ur þeirra sem á biðlistanum væru bíði að meðaltali í tvö ár eftir þjónustu. 

„Þeir hafa engar afsakanir lengur“

„Það er ljóst að 200.000 milljónir í þennan málaflokk á ári, fyrir þúsundir sjúklinga, það borgar ekki einu sinni þau stöðugildi sem þarf til að halda uppi lágmarksþjónustu,“ segir Kristján og útskýrir að þá eigi eftir að greiða allan annan kostnað. 

„Ég veit ekki hvernig þeir ímynda sér að þetta sé hægt. Við erum orðnir eftirbátar allra nágrannalanda okkar fyrir löngu síðan.“

Á sama tíma séu núll krónur lagðar í málaflokkinn sé litið til fjárhagsáætlunar ríkisins til næstu fimm ára, sem lögð hafi verið fram á Alþingi.

„Það eru engin merki um að ríkið ætli að lyfta upp litla fingri til að bæta úr neinu í þessum efnum. Þeir þurfa að hysja upp um sig ef þeir ætla að fá starfsfólk í þessum geira til þess að trúa því að þeim sé einhver alvara,“ segir Kristján og bætir við: 

„Annars halda þessar fréttir um vaxandi biðlista áfram að koma ársfjórðungslega í fjölmiðlum. Þeir hafa engar afsakanir lengur.“ 

Sífellt svikin í húsnæðismálum 

Auk þess að skorta fjármagn til að halda uppi lágmarksþjónustu segir Kristján stofnunina sífellt hafa verið svikna í húsnæðismálum. Það sé miður þar sem stofnunin hafi í áratug barist fyrir því að hægt yrði að mennta fólk í heyrafræðum hér á landi. 

„Ef við eigum að fara að þjálfa hér nema, sem samningurinn gerir ráð fyrir, í klínískri þjálfun, þá getum við það ekki í núverandi húsnæði,“ segir Kristján. 

Alltaf sömu svörin frá ráðuneytinu

„Þú munt alltaf fá sömu svörin frá ráðuneytinu: „Það er verið að vinna að lausn í þessu.“ Það er núna verið að skipa fjórða starfshópinn á tólf til fimmtán árum, til að vinna að framtíð heyrnarþjónustu á Íslandi og síðan gerist ekki neitt,“ segir Kristján og undirstrikar að svona hafi ástandið verið síðan fyrir hrun. 

„Þá var skorið niður og það hefur aldrei verið bætt upp þar sem var skorið burt fyrir hrun.“

Er að fjölga í hópi þeirra sem þarf á þjónustu ykkar að halda? 

„Já, bæði með öldrun þjóðarinnar og fjölgun. Það er óbreytt ástand búið að vera hér [hjá Heyrnar- og talmeinastöð] í tuttugu og fimm ár. Á þeim tíma hefur þjóðinni fjölgað úr 280 þúsund í 400 þúsund og þjóðin er að eldast,“ segir Kristján og útskýrir að heyrnarskerðing sé þrisvar sinnum algengari hjá öldruðum heldur en hjá ungu fólki og því aukist þjónustuþörfin samhliða hækkandi aldri fólks. 

Framfarir í tækniþróun og aukin þjónusta

Hækkandi aldur Íslendinga og fólksfjölgun eru þó ekki einu ástæður þess að þjónustuþegum stofnunarinnar hefur farið fjölgandi á undanförnum árum því framfarir í tækniþróun eiga jafnframt sinn þátt í því. 

„Það er komin fram tækni sem gerir okkur kleift að sinna hópi sem ekki var hægt að sinna áður,“ segir Kristján og á við ígræðslutækni eða kuðungsígræðslur sem gerðar eru til að bæta heyrn fólks. 

Í kjölfar þessarar tækninýjungar segir Kristján að hér á landi sé hópur þeirra sem hefur farið í ígræðslu jafn stór og sá hópur Íslendinga sem sé táknmálstalandi, með íslenskt táknmál að móðurmáli. 

Þessu fylgi bæði aukinn kostnaður fyrir stofnunina sem og aukin þjónustuþörf. Kristján segir þessa þjónustu þó eiga að vera sjálfsagða þar sem ígræðsla geri fólk að fullkomlega virkum þjóðfélagsþegnum. Einstaklinga „sem áður hefðu verið náttúrulega heyrnarlausir með öllu og í mun þyngri fötlun.“

„Þú finnur engan heyrnarskertan á Alþingi“

Spurður hvers vegna hann telji þjónustuna ekki fá meiri hljómgrunn hjá ráðmönnum landsins svarar Kristján því til að það hafi með þjónustuþörf þeirra að gera. 

„Þú finnur engan heyrnarskertan á Alþingi eða í ríkisstjórn. Þeim finnst þetta svo ómerkileg fötlun og er bara alveg slétt sama.“ Kristján greinir blaðamanni frá því að hann hafi nýlega farið á fund fjárveitinganefndar þar sem hann kveðst hafa spurt hversu margir nefndarmanna hefðu átt í minnstu vandræðum með heyrn um ævina. „Það var enginn.“

Þá segist Kristján hvergi sjá heyrnartæki bregða fyrir í félagsstarfi því heyrnarskertir dragi sig út úr öllu félagsstarfi. „Þeir mæta ekki á fundi hjá einu sinni eldri borgurum. Samtök eldri borgara sýna þessu meira að segja lítinn skilning því að þeir sem taka þátt í því starfi, þeir eru ekkert mjög illa haldnir af þessari fötlun.“ 

Þetta fólk er „mjög afskekkt og lætur lítið fyrir sér fara. Því miður,“ segir Kristján sem bindur vonir við að heyrnarskertir fari að krefjast úrbóta í þjónustunni. 

„Svo er þetta bara svona, tæknin er orðin flóknari og dýrari. Úrræðin eru orðin dýrari og þetta fólk hefur ekki lengur efni á þessu. Þess vegna bíða enn þá yfir 2.000 manns á biðlista hér hjá ríkisstofnuninni í þeirri von að þeir fái ódýrari úrræði hér. Frekar en að fara þangað sem ráðuneytið vill vísa þeim, út á einkamarkaðinn, þar sem þau þurfa að borga upp undir 50% meira fyrir úrræðin.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert