Áttæringi bjargað frá Grindavík

Báturinn, ásamt Sigurbjörgu Árnadóttir, formanni Vitafélagsins.
Báturinn, ásamt Sigurbjörgu Árnadóttir, formanni Vitafélagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Grindvískum áttæringi var komið fyrir á bryggjunni í Reykjavíkurhöfn í gær, en til stendur að geyma bátinn í Reykjavíkurhöfn í sumar.

Báturinn er eftigerð eldri tegunda áttæringa, sem smíðaðir voru með sérstöku Grindavíkurlagi en slíkir bátar þóttu afar sterkbyggðir og einstakir fyrir það hve vel þeir klufu brim ásamt því að geta þolað harðar lendingar á grjóti.

Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins og ein þeirra sem stóð fyrir flutningunum, segir að ákveðið hafi verið að flytja bátinn af ótta við skemdir vegna jarðhræringanna, en hann var áður í geymslu Hollvinasamtaka áttæringsins í Grindavík.

Einstök menningararfleið

Báturinn þykir einnig merkilegur fyrir þær sakir að hann er súðbyrtur, en handverk og hefðir við smíði súðbyrtra báta er eina menningararfleiðin sem Íslendingar eiga á lista UNESCO. Báturinn var smíðaður af Hafliða Aðalsteinssyni, Einari Jóhanni Lárussyni og Eggerti Björnssyni eftir teikningu Bárða Tómassonar frá 1945.

„Þessi bátur var smíðaður til þess að varðveita atvinnuhætti Grindvíkinga, enda ríkt tilefni til. Bátar líkt og þessi héldu lífi í Grindavík,“ segir Sigurbjörg í samtali við mbl.is.

Afar fá eintök slíkra báta hafa varðveist en báturinn Sigurbjörg segir mikilvægt að Íslendingar leggi sig betur fram við varðveislu mynja sem tengjast strandmenningu á Íslandi.

„Það er mikilvægt að vekja fólk til umhugsunar um þann auð sem við eigum við strendur landsins, hvort sem það eru bátar eða önnur strandmenning,“ segir Sigurbjörg að lokum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert