Dapurleg umræða en tilefni til sjálfskoðunar

Bæjarstjóri segir umræðu sem þessa koma illa við brotthætt samfélög …
Bæjarstjóri segir umræðu sem þessa koma illa við brotthætt samfélög á borð við Tálknafjörð. mbl.is/Guðlaugur J. Albertsson

Bæjarstjóri Vesturbyggðar, Gerður Björk Sveinsdóttir, segir fréttaflutning ríkisútvarpsins um fyrrverandi nemanda í Tálknafjarðarskóla gefa tilefni til sjálfskoðunnar, en kveðst þó ekki sammála öllu því sem þar kom fram.

Í samtali við mbl.is segir hún að sér finnist umræðan dapurleg.

Í kvöldfréttum ríkismiðilsins í gær var rætt við föður drengs í 7. bekk sem nýverið skipti úr Tálknafjarðarskóla.

Þegar í nýja skólann var komið voru foreldrar drengsins kallaðir á fund þar sem þeim var greint frá því að það námsefni sem hann hafði fengið í Tálknafjarðarskóla hæfði nemanda í 5. bekk og því væri á brattann að sækja ef hann ætti að verða jafnvígur jafnöldrum sínum í námi.

Fram kom að fréttastofan hefði rætt við fleiri foreldra sem hefðu svipaða sögu að segja.

Einhliða umfjöllun

Gerður Björk Sveinsdóttir, nýráðinn bæjarstjóri Vesturbyggðar [áður Vesturbyggð og Tálknafjörður], segir umræðuna dapurlega: 

„Þetta var mjög einhliða umfjöllun foreldris í skólanum og við viljum ekki tala um málefni einstaka barna heldur tölum við faglega um starfið í skólanum.“

Hún segir sveitarfélaginu hafa borist erindi frá menntamálaráðuneytinu sem hafi verið svarað.

Gerður segir að vissulega sé um að ræða ástæðu til sjálfskoðunar en kveðst þó ekki sammála öllu því sem fram kom í fréttaflutningi útvarpsins.

Brothætt samfélag

„Við vinnum eftir aðalnámskrá þar sem við uppfyllum ákveðin hæfniviðmið. Námsefni 5. bekkjar, námsefni 6. bekkjar og svo framvegis er ekki til lengur heldur gilda viðmiðin yfir 5.-7. bekk og þannig er kennslan. Þú þarft að uppfylla ákveðin hæfniviðmið,“ segir Gerður og bætir við:

„Okkur finnst þessi umræða mjög óvægin og ósanngjörn þar sem verið er að stilla þessu upp eins og það sé ekki verið að kenna námsefni við hæfi, sem er alls ekki.“

Gerður segir þá jafnframt að umræða sem þessi geti haft mjög neikvæð áhrif á samfélög eins og Tálknafjörð sem eru viðkvæm og brothætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert