Fæðingarorlof, leigumál og grásleppa náðu í gegn

Ingibjörg Ísaksen og Hildur Sverrisdóttir eru þingflokksformenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Ingibjörg Ísaksen og Hildur Sverrisdóttir eru þingflokksformenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Samsett mynd

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að frumvörp um lagareldi og frumvarp um vindorku sé vel á veg komin og að ekki hafi verið ágreiningur um það heldur hafi ekki tekist að fullvinna málið fyrir þinglok. 

Hildur segir Sjálfstæðismenn afar ánægða með að útlendingalög hafi hlotið brautgengi í þinginu og að ný lögreglulög sem kveða á um auknar heimildir lögreglu. Þá fagni flokkurinn kvótasetningu á grásleppuveiðum auk þess sem breytingar á lögum um fæðingarorlof gera það að verkum að allir sem eiga rétt til hækkunar fæðingarorlofs óháð fæðingardegi barns. 

„Útlendingamálin hafa verið í algjörum forgangi og við erum mjög sátt við það hvernig það mál fór í gegn og teljum mjög mikilvægar breytingar hafa verið samþykktar,“ segir Hildur en málið var samþykkt síðastliðinn föstudag. 

Hátt í sjötíu þingmál á lokametrunum 

Ingibjörg Ísaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokks, segir niðurstöðu þingloka ánægjulega. Búast má við því að hátt í 70 þingmál verða samþykkt á lokametrunum. Hún segir mörg mikilvæg mál hafi verið kláruð og að þingflokkurinn sé mjög ánægður með heildarmyndina. 

„Þetta sýnir að þetta var afkastamikið þing og við erum afar ánægð með það,“ segir Ingibjörg. 

Frumvarp um húsaleigulög breyttist á þann veg að tekin var út almenn skráningarskylda á leigusamningum áður en það fór fyrir þingið. 

„Við fögnum nýjum húsaleigulögum. Skráningarskyldan var vissulega tekin út því hefur verið beint til ráðherra að finna einhverja hvata fyrir skráningu. Því við þurfum að tryggja góðar upplýsingar um leigumarkaðinn og samsetningu hans,“ segir Ingibjörg.  

Dósmúrskurður eftir fjóra mánuði  

Varðandi frumvarp um breytingar á lögreglulögum breyttist það á lokametrunum að lögregla þarf að óska eftir dómsúrskurði að fjórum mánuðum liðnum þegar kemur að forvirku eftirliti. 

Vonbrigði að klára ekki lagareldi og vindorku 

„Bæði vindorkumálin og lagareldismálin eru þess eðlis að þetta eru umfangsmikil mál og einfaldlega of umfangsmikil til að klára á þessum lokadögum. Það eru vissulega vonbrigði að ná ekki að klára þau því mikil vinna hefur verið lögð þessi mál. En við búum að þeirri vinnu sem lögð hefur verið í þessi mál í haust,“ segir Hildur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert