Hámarksgreiðslur verða 900 þúsund

Þetta væri fyrsta hækkun fæðingarorlofsgreiðslna síðan árið 2018.
Þetta væri fyrsta hækkun fæðingarorlofsgreiðslna síðan árið 2018. Ljósmynd/Colourbox

Velferðarnefnd Alþingis afgreiddi í gær stjórnarfrumvarp úr nefndinni sem kveður á um hækkun á hámarks fæðingarorlofsgreiðslum úr fæðingarorlofssjóði í þremur áföngum. Nefndin lagði þó til nokkrar breytingartillögur.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að ein ástæða hækkunarinnar er að „treysta fjárhaglegu öryggi ungbarnafjölskyldna og stuðla að því markmiði fæðingarorlofskerfisins um samvistir barna við báða foreldra og samræming fjölskyldu- og atvinnulífs nái fram að ganga.“ 

Í upprunalega frumvarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, átti fyrsti áfangi hækkunarinnar aðeins að ná til foreldra barna sem eru fædd eftir 1. apríl 2024 en með breytingartillögu nefndarinnar nær hækkunin til foreldra barna sem fæðast fyrir 1. janúar 2025.

Hækkun úr 600 þúsund í 900 þúsund

Fyrsti áfanginn felur í sér hækkun úr 600 þúsund krónum í 700 þúsund krónur, en síðast voru hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði hækkaðar árið 2018 og hækkuðu þá úr 520.000 krónum í 600.000 krónum.

Í öðrum fasa hækkunarinnar hækka fæðingarorlofsgreiðslur úr 700 þúsund krónum í 800 þúsund krónum og er fyrirhuguð fyrir foreldra sem eignast barn á milli 1. janúar 2025 og 31. desember 2025.

Síðasti áfanginn nemur hækkun úr 800 þúsund krónum í 900 þúsund krónur en sú hækkun nær til foreldra barna sem fæðast eftir 1. janúar 2026.

Sveitarstjórnarstigið verði að taka við

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra fagnaði áfanganum á myndskeiði á samfélagsmiðlinum TikTok í gær.

Þá sagði hún það mikilvægt skref að tryggja jafnræði foreldra og lagði áherslu á að fæðingarorlofsmál og leikskólamál séu „okkar mikilvægustu jafnréttistól“. Hún biðlaði jafnframt til sveitarstjórnarstigsins að stíga fastar til jarðar í leikskólamálum.

„Löggjafarvaldið á þinginu fer með ábyrgð fæðingarorlofsins og þetta eru því ánægjulegar, mikilvægar og tímabærar breytingar. En ekki síður skiptir máli að leikskólarnir taki við að fæðingarorlofi loknu og að við gerum betur fyrir barnafjölskyldur en við erum að gera í dag og sú ábyrgð með leikskólana liggur hjá sveitarfélögunum.“

@aslaugarna

Það eru ýmsar fréttir úr þinginu þessa dagana, nefndarálitið um breytingar á lögum um fæðingarorlof vakti þó hjá mér sérstaka lukku.

♬ original sound - Áslaug Arna



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert