Hraunkæling hafin á ný fyrir ofan Svartsengi

Hraunkæling er hafin á ný.
Hraunkæling er hafin á ný. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samhæfingarstöð almannavarna var virkjuð fyrr í kvöld þegar þrjár hraunspýjur fóru að fikra sig yfir varnargarðana á svipuðum stað og á þriðjudag, fyrir ofan Svartsengi. Um 35 slökkviliðsmenn eru á svæðinu auk þeirra verktaka sem vinna á jarðýtum. Slökkviliðsstjóri í Grindavík segir vinnuna samspil vinnuvéla og vatns.

Rúv greindi fyrst frá. 

„Samhæfingarstöð almannavarna var virkjuð fyrr í kvöld út af þessum hraunspýjum sem voru að laumast þarna yfir varnargarðinn og það var ákveðið að reyna aftur hraunkælingu með þeirri vitneskju sem við fengum í fyrradag. Það hefur gengið betur, en tilgangurinn með þessu sem við erum að gera er meira að hægja á streyminu,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptafulltrúi almannavarna í samtali við mbl.is

Hefur virkað ágætlega í þetta sinn

„Það átta sig allir á því að við erum ekki að slökkva á neinu þarna. En það að hægja á hraunflæðinu hefur virkað ágætlega þannig það er það sem við erum að gera. Við erum hérna með fullt af sérfræðingum að reyna að finna út úr því hvað við getum gert og hvernig við getum komið í veg fyrir að þetta haldi áfram,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptafulltrúi almannavarna.

Hún játar því að enn sé verið  læra á búnaðinn og hraunkælinguna en ákvörðun hafi verið tekin um að kaupa öflugri búnað til þessarra verka. 

Vinnuvélarnar fremsta vopnið

 „Það eru þrjár tungur sem eru að silast yfir garðinn,“ segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, í samtali við mbl.is

„Þetta er meira en síðast en við erum alveg með báða fætur á jörðinni enn þá.“

Spurður hvernig staðan líti út miðað við fyrr í vikunni segir hann vinnuvélarnar skipta mestu.

„Vinnuvélarnar, þær náttúrulega eru fremsta vopnið og lang afkastamestu og hafa mestu áhrifin og við erum bara svona þeim til stuðnings að halda einhverjum litlum tungum niðri með vatni sko. Þannig við erum svona bara aðeins með en gerum gagn,“ segir Einar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert