Mótið á áætlun þrátt fyrir lokanir

Búist er við hátt í 10.000 gestum á Akranesi um …
Búist er við hátt í 10.000 gestum á Akranesi um helgina mbl.is/Eggert

Norðurálsmótið á Akranesi var formlega sett í dag og mun standa fram til sunnudags. Mikil röskun hefur verið á umferð um svæðið þar sem Hvalfjarðargöngunum hefur þrisvar verið lokað í dag en ekki er búist við að það trufli mótið.

Eggert Herbertsson, formaður knattspyrnudeildar ÍA, segir í samtali við mbl.is að útlit sé fyrir að helgin verði góð.

„Mótið er hafið, en ég veit ekki til þess að slysið í Hvalfjarðargöngunum hafi haft nein áhrif á það. Flest lið voru komin hingað áður en göngin lokuðu og ég á því von á að allt gangi eins og það eigi að gera.“ segir Eggert.

„Það getur hinsvegar verið að einhverjir foreldrar, ömmur og afar hafi misst af þessu í dag en við vonum að það rætist úr þessu sem fyrst.“

Íbúafjöldi bæjarins tvöfaldast 

Eggert segist búast við liðum alls staðar að af landinu, en mótið er fyrir yngri flokka og á hann því von á að fjöldi foreldra og annarra áhorfenda fylgi keppendunum. 

„Við eigum von á hátt í tvö þúsund keppendum víðs vegar að af landinu, en við skjótum á að í heildina muni um 7.500 til 10.000 manns muni heimsækja bæinn á meðan mótinu stendur, sem er tvöföldun á íbúafjölda bæjarins,“ segir Eggert og bætir við:

„Svo er frábær stemmning í bænum, veðrið á að vera ágætt núna fyrst um sinn og við eigum ekki von á öðru en að þetta verði mjög gott mót.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert