Mótmæla áformum Bjarna um skertar launahækkanir

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur lagt fram frum­varp um að laun …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur lagt fram frum­varp um að laun æðstu embættismanna hækki aðeins um 66 þúsund krón­ur. Eggert Jóhannesson

Lögreglustjórar og dómarar mótmæla frumvarpi forsætisráðherra sem felst í skerðingu launahækkana til æðstu embættismanna. Það sé grundvallaratriði að greina á milli lögreglustjóra, ákæruvalds og dómara annars vegar og þjóðkjörinna fulltrúa hins vegar.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur lagt fram frum­varp um að laun æðstu embættismanna hækki um 66.000 krón­ur, eða 3,5% að meðaltali. „Að óbreyttu hefðu laun­in hins veg­ar hækkað um 8%, eða sem nem­ur hækk­un launa­vísi­tölu rík­is­starfs­manna á síðasta ári,“ skrifaði Bjarni í færslu á Facebook á dögunum.

Lögin ná til forseta Íslands, ráðherra, þingmanna, dómara, saksóknara, lögreglustjóra, ráðuneytisstjóra, seðlabankastjóra, varaseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara.

Dómarafélagið, Dómstólasýslan og Lögreglustjórafélag Íslands hafa sent inn umsögn um frumvarpið og gagnrýna þá harkalega.

„Afar íþyngjandi“

Lögreglustjórafélag Íslands lýsir andstöðu sinni og vonbrigðum með að „nú í þriðja sinn skuli lögreglustjórar sæta inngripum í laun sín með afar íþyngjandi hætti,“ segir í áliti þeirra. 

„Að mati lögreglustjórafélagsins er vegið að sjálfstæði ákæruvalds og dómstóla með lagabreytingunni þegar ráðherra leggur fram frumvarp nú á lokadögum þingsins án þess að ráðrúm hafi gefist til umræðu um það og ekkert samráð verið haft við fagfélög þessa hóps,“ segja lögreglustjórar enn fremur en þeir vilja að frumvarpið eigi ekki við um þá.

Brýnt að endurskoða

Dómstólasýslan segir brýnt að endurskoða það fyrirkomulag sem komið var á með lögum 2019 þar sem ákvörðunum um laun dómara og ákærenda er spyrt saman við ákvarðanir um laun þjóðkjörinna fulltrúa sem lúta alls ólíkum sjónarmiðum.

„Við þetta fyrirkomulag verður ekki lengur unað,“ skrifar Dómstólasýslan í sínu áliti.

Dómarafélagið bendir á í sínu áliti að á Íslandi séu dómarar 65 talsins. Samkvæmt því væru þeir rúmlega þriðjungur þeirra sem verða fyrir skerðingu af völdum laganna. Þingmenn eru aðeins 63. Dómarafélagið leggst gegn því að frumvarpið verði látið ná til dómara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert