Sjálandsskóli þurfi frekar að líta í eigin barm

Kristrún Lind Birgisdóttir segir umfjöllun RÚV um Tálknafjarðarskóla ekki ástæða …
Kristrún Lind Birgisdóttir segir umfjöllun RÚV um Tálknafjarðarskóla ekki ástæða til endurskoðunar á skólastarfi. Ljósmynd/Aðsend

Framkvæmdastjóri Ásgarðs sem veitt hefur skólaráðgjöf í Vesturbyggð og Tálknafirði telur umfjöllun ríkisútvarpsins um fyrrverandi nemanda Tálknafjarðarskóla ekki gefa ástæðu til endurskoðunar á skólastarfi.

Í skólanum sé unnið gott starf og frekar sé tilefni til að endurskoða skólastarf sem leggur ofuráherslu á bóknám. 

Í kvöldfréttum gærdagsins var rætt við föður fyrrverandi nemanda í Tálknafjarðarskóla sem nýlega skipti yfir í Sjálandsskóla í Garðabæ. Foreldrar drengsins sem er í 7. bekk voru kallaðir á fund í nýja skólanum þar sem þeim var tilkynnt að það námsefni sem hann hefði fengið í Tálknafjarðarskóla væri við hæfi nemenda í 5. bekk.

Í umfjölluninni kom fram að nemandinn hefði hvorki lært algebru né aðra flókna stærðfræði í skólanum og að námið í skólanum væri að mestu bóklaust.

Rætt hefði verið við fleiri foreldra sem hefðu svipaða sögu að segja.

Ekki jafn einfalt og virðist

Kristrún Lind Birgisdóttir er eigandi og framkvæmdastjóri Ásgarðs sem sérhæfir sig í að veita sveitarfélögum sem ekki eru með fræðslustjóra ráðgjöf við að fylgja kröfum sem ríkið setur í aðalnámskrá og lögum.

Meðal þeirra sveitarfélaga sem hafa nýtt sér skólaráðgjöfina er Tálknafjörður sem á dögunum sameinaðist sveitarfélaginu Vesturbyggð.

Kristrún segir að skólastarf sé ekki eins einfalt og kann að virðast í fréttaflutningi útvarpsins um mál nemandans: 

„Það væri óskandi að skólastarf væri svo einfalt að það væri bara gefið út efni frá ríkinu fyrir fyrsta, annan, þriðja og fjórða bekk og það væri alveg niðurneglt hvað ætti að gera og hvernig ætti að gera það, en það er alls ekki þannig,“ segir hún.

„Frá árinu 2011 hefur skólum verið ætlað að vinna út frá hæfniviðmiðum og vinna að ákveðinni hæfni sem er tilgreind í aðalnámskrá og það er ekki svo einfalt að það sé hægt að stýra því með bókum.“

Ekki hægt að meta nemendur út frá bókum

Kristrún tekur þó fram að ríkið leggi enn mikla áherslu á bækur í námsgagnaframleiðslu sinni og því sé skiljanlegt að fólk haldi að bóknám eigi að ráða för.

Hún segir það ekki ganga upp að ætla að meta hæfni og framfarir nemanda út frá ákveðnum námsbókum sem einhverjir skólar hafa valið að styðjast við.

„Það er hlutverk skólanna að sjá til þess að framfarir nemandans séu í samræmi við hæfniviðmið en ekki í samræmi við einstaka námsbækur,“ segir Kristrún.

Kristrún segir umfjöllunina ekki ástæðu til endurskoðunar á skólastarfi í Tálknafjarðarskóla og telur frekar að Sjálandsskóli þurfi að líta í eigin barm: 

„Ef við sjáum skóla þar sem börnum er ætlað að passa inn í þröngar, gamlar og úreltar námsbækur þá þarf að skoða þann skóla.“

Góður undirbúningur fyrir framtíðina

Kristrún segir námið í Tálknafjarðarskóla persónumiðað, byggi á styrkleikum barnanna, sé skapandi og hafi skýran tilgang. 

Hún tekur sem dæmi verkefni sem nemendur í skólanum unnu að í tvö ár þar sem þeir endurhönnuðu skólalóðina og söfnuðu verulegum upphæðum til þess. 

„Þau hafa verið að vinna frábært starf þar sem verið er að nýta allt samfélagið í verkefnum sem búa börnin vel undir framtíðina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert