Tæplega helmingur með nafnlausan aðgang

Um þriðjungur foreldra barna á aldrinum 9-12 ára fylgist með …
Um þriðjungur foreldra barna á aldrinum 9-12 ára fylgist með samfélagsmiðlanotkun þeirra. Ljósmynd/Aðsend

Þriðjungur barna í 4.-7. bekk segja foreldra sína fylgjast með virkni þeirra á samfélagsmiðlum og tæplega helmingur framhaldsskólanema hafa einhvern tímann stofnað nafnlausan samfélagsmiðlaaðgang.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu ríkisstofnunarinnar Fjölmiðlanefndar um netöryggi barna.

Skýrslan byggir á niðurstöðum könnunarinnar Börn og netmiðlar sem framkvæmd var í 53 grunnskólum og 25 framhaldsskólum undir lok 2023.

Deila lykilorðum til öryggis

Eitt af því sem fram kemur í skýrslunni er að um fjórðungur framhaldsskólanema vita lykilorð einhverra vina sinna á samfélagsmiðlum. Hlutfallið er nokkuð hærra hjá stelpum eða þriðjungur. 

Algengasta skýringin sem svarendur gáfu var að þetta væri öryggisráðstöfun ef þau skyldu gleyma eigin lykilorði.

Önnur algeng ástæða var að þetta væri gert til að viðhalda svokölluðum streak-sendingum meðal vina á Snapchat þegar þeir færu í ferðalög en á miðlinum er haldið utan um hversu marga daga maður hefur talað við vini í röð.

Þá kemur fram að tæpur helmingur allra notenda samfélagsmiðlanna Snapchat og TikTok í 4.-7. bekk hafi þurft að blokka einhvern og að um 10% þátttakenda í könnuninni samþykki vinabeiðni frá hverjum sem er. 

Minnihluti foreldra fylgist með

Samkvæmt skýrslunni fylgist minnihluti foreldra með samfélagsmiðlanotkun barna sinna.

Um þriðjungur svarenda í 4.-7. bekk segja foreldra sína fylgjast með virkni þeirra á samfélagsmiðlum, t.d. nýjum vinum, skilaboðum og hvað þeir skoði þar. Í 8.-10. bekk er eftirlit foreldra aðeins minna.

Um þriðjungur nemenda í grunnskóla segist þó ekki vita hvort foreldrar þeirra fylgist með því hverju þau hafa hlaðið niður og hversu lengi þau hafi verið á netinu.

Illa við að nöfn sín birtist

Í skýrslunni kemur einnig fram að um 45% nemenda á framhaldsskólastigi hafi einhvern tímann verið með nafnlausan samfélagsmiðlaaðgang.

Flestir segja ástæðuna fyrir slíkum reikningi vera til að gæta nafnleysis en einhverjum svarendum var illa við að nöfn sín birtust á netinu.

Þó nokkrir stofnuðu nafnlausan reikning til að birta teikningar sínar og myndskeið án þess að verða fyrir stríðni. Þá nefndu nokkrir að nafnleysið hefði verið til að „trolla“, „stalka” og grínast í vinum og skólafélögum.

Skýrsluna má nálgast á vef ríkisstofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert