Varnargarðurinn hækkaður og breikkaður

Jónas Þór Ingólfsson, jarðfræðingur hjá Eflu.
Jónas Þór Ingólfsson, jarðfræðingur hjá Eflu. mbl.is/Eyþór

„Akkúrat núna erum við að hlaða utan á garðinn til þess að ná heildstæðri hækkun á þessum garði og svo hjálpa slökkviliðinu að vera með aðstæður fyrir þessar vatnskælingar og athuga hvort við náum að stoppa þetta eða hægja á þessu eitthvað,“ sagði Jónas Þór Ingólfsson, jarðfræðingur hjá Eflu.

Vatnskæling fór fram í dag á hraunspýjum sem voru farnar að renna yfir varnargarð í Svartsengi. Fór þar fram einnig mikil vinna á varnargarðinum sjálfum.

Settu upp varnarlínu

Segir Jónas að ekki sé verið að vinna í byggingu nýs varnargarðs, heldur sé um að ræða hækkun og breikkun á varnargarðinum sem hraunspýjurnar voru farnar að kræla yfir.

Þó var sett up varnarlína á svæðinu í gærnótt sem hjálpartól ef til þess kæmi að hraunið næði alla leið yfir varnargarðinn. 

„Til að eiga þarna eitthvað til þess að hörfa til baka til ef að við værum að missa þetta en svo hefur ekki þurft að reyna á það enn þá.“

Mikil vinna fór fram á varnargörðum við Svartsengi í dag.
Mikil vinna fór fram á varnargörðum við Svartsengi í dag. mbl.is/Eyþór

Hafa náð að halda hrauntungum í skefjum

Spurður um framfarirnar sem hafa átt sér stað síðan vinna hófst segir Jónas að tekist hafi að hemja framgang hraunspýjanna og halda hrauninu í skefjum.

„Svo verðum við bara að sjá, það er svona ákveðinn tilraunastarfsemi að senda vatnið í svona stærri útrásir og sjá hvað það gerir.“

Spurður um tímalengd verkefnisins segir Jónas að mögulega sé um að ræða einhverjar vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert