Vildi hafa Grindavík með sér

Ingvar Guðjónsson og Tolli við málverkið.
Ingvar Guðjónsson og Tolli við málverkið. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta kallar maður að gangast við harminum,“ segir Tolli listmálari um málverk af Grindavík í gíslingu elds og hrauns sem hann hefur nýlokið við að mála fyrir Grindvíkinginn Ingvar Guðjónsson.

„Þetta var áskorun hjá Ingvari, eiginlega alveg biluð hugmynd,“ heldur Tolli áfram. „Hann vildi fá portrett með öllum þessum átökum inn á heimili sitt.“

Ingvar staðfestir það sjálfur. „Fyrst ég get ekki búið þarna lengur, þá vildi ég fara með bæinn minn með mér, alla vega í einhverri mynd.“

Mynd Árna Sæberg af Grindavík sem var Tolla innblástur.
Mynd Árna Sæberg af Grindavík sem var Tolla innblástur. mbl.is/Árni Sæberg

Tolli grípur orðið:

„Til að fá einhverju breytt þarf að byrja á að gangast við því. Það er alvöruheilun. Hann flýr ekki þessar hamfarir, bælir þær ekki niður, heldur mætir öllu nákvæmlega eins og það er. Það er svo búddískt. Eldgosin við Grindavík snerta mig auðvitað ekki eins sterkt en ég hef sjálfur þurft að gera þetta varðandi aðra hluti í mínu lífi.“

Kom bara einn listamaður til greina

Forsaga málsins er sú að Ingvar lá andvaka eina nóttina í vor á bráðabirgðaheimili sínu í miðbæ Reykjavíkur. Gat ómögulega sofnað. Og hvað gera menn við þær aðstæður? Fá geggjaðar og oftar en ekki sínar allra bestu hugmyndir.

„Mig langaði í málverk af Grindavík til að hafa með mér inn á nýja heimilið okkar sem við höfum fest kaup á í Keflavík. Og það kom bara einn listamaður til greina. Ég á verk eftir Tolla, höfundareinkenni hans eru mjög sterk og hann einn af okkar alflottustu málurum,“ segir kaupandinn.

Tolli leggur lokahönd á verkið.
Tolli leggur lokahönd á verkið. mbl.is/Árni Sæberg

Ingvar gerði eiginkonu sinni grein fyrir þessum áformum strax um morguninn. „Hún sagði mér að slaka aðeins á. Seinna um daginn var ég búinn að mæla mér mót við Tolla,“ rifjar hann upp hlæjandi. „Það þarf geggjaða gaura til að fá svona hugmynd og framkvæma hana. Við Tolli erum ágætir saman.“

Tolli féll strax fyrir hugmyndinni og beið ekki boðanna. Honum gekk hins vegar illa að ná í sjónarhornið sem Ingvar hafði í huga á netinu og ekki þýddi að stökkva á staðinn og taka myndina; við erum auðvitað að tala um hamfarasvæði.

„Hvern hringir maður þá í?“ spyr Tolli. Og svarið blasir við okkur, Árna Sæberg ljósmyndara á Morgunblaðinu. Hann hafði engar vöflur á, heldur festi sjónarhornið á mynd með fulltingi dróna.

Ingvar og Tolli fara yfir skissur af verkinu.
Ingvar og Tolli fara yfir skissur af verkinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Það útsýni varð mér innblástur,“ segir Tolli, „og skilaði þessari niðurstöðu. Markmiðið var að ná ógninni sem liggur yfir bænum, meðvirknislaust. Þetta er expressjónískt nýmálverk. Yfir slíku verki er engin leið að liggja og týna sér í smáatriðum; kraftmikið málverkið verður að standa sjálft, frjáls andi og höfundareinkenni. Ég málaði þetta verk af hjartans gleði. Allir sáttir.“

Nánar er rætt við Tolla og Ingvar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert