Dúxaði í MA með 9,83 í einkunn

Max Forster dúxaði Menntaskóla Akureyrar með 9,83.
Max Forster dúxaði Menntaskóla Akureyrar með 9,83. Ljósmynd/Aðsend

Max Forster útskrifaðist af náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum á Akureyri um síðustu helgi og dúxaði með 9,83 í einkunn. Hann stefnir á að fara í Háskólann í Reykjavík en er enn að velja á milli raforkuverkfræði og hugbúnaðarverkfræði. 

Í samtali við mbl.is segir Max lykilinn á bak við árangurinn fyrst og fremst hafa verið skipulag og að hlusta vel í tímum. 

Félagslífið einstakt

Max segir MA vera frábæran skóla, kennararnir góðir og krakkarnir skemmtilegir. Hann segir félagslífið vera frábært og telur að bekkjakerfið og söngsalirnir eigi stóran þátt í að gera félagslífið svo einstakt. 

Bjóstu við þessu?

„Nei, eða svona bæði og, ég vissi að það voru aðrir háir en það voru margir að segja við mig að þeir héldu að ég væri dúxinn," segir Max. 

„Ég var mjög glaður.“

Spilar tölvuleiki og frisbígolf

Max finnst skemmtilegast að spila tölvuleiki og frísbígolf í frítíma sínum.  

„Það er bara alls konar, söguleikir eins og Uncharted eru mjög skemmtilegir en Call of Duty með vinunum klikkar aldrei,“ segir Max spurður hvaða tölvuleikir eru skemmtilegastir. 

Að sögn Max finnst honum forritun og eðlisfræði mjög skemmtileg en að stærðfræði sé uppáhaldið hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert