Stórfelld árás á Árvakur: Gögn í gíslingu

Árásarinnar varð vart vegna þess að gæta fór hægagangs í …
Árásarinnar varð vart vegna þess að gæta fór hægagangs í tölvukerfum Árvakurs í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, varð fyrir stórfelldri netárás í gær með þeim afleiðingum að gríðarlegt magn gagna var tekið í gíslingu. Fréttavefurinn mbl.is lá niðri frá um kl. 17 til um kl. 20, þegar tókst að koma honum aftur í loftið.

Á sama tíma var ekki hægt að vinna í ritstjórnarkerfi Morgunblaðsins og útsendingar útvarpsstöðvarinnar K100 lágu niðri.

„Öll gögn voru í reynd tekin og dulkóðuð, bæði afrit og gögn sem unnið er með dags daglega. Það á við um öll tölvukerfi Árvakurs,“ segir Úlfar Ragnarsson, forstöðumaður upplýsingatæknisviðs Árvakurs.

„Staðan er grafalvarleg og eiginlega eins slæm og hún getur orðið.“

Akira á bak við árásina 

Úlfar staðfestir að rússneskur hópur, sem kallar sig Akira, standi að baki árásinni en um hann hefur verið fjallað í fréttum hér á landi, meðal annars í tengslum við árásir á tölvukerfi bílaumboðsins Brimborgar og Háskólans í Reykjavík.

Árásarinnar varð vart vegna þess að gæta fór hægagangs í tölvukerfum Árvakurs í gær. Að sögn Úlfars liggur ekki fyrir með hvaða hætti glæpamennirnir smeygðu sér inn í kerfin en fyrir liggi að hópar sem þessi séu úrræðagóðir.

„Það hefur gerst einhvern tíma í mánuðinum og svo virðist þetta hafa mallað bak við tjöldin í einhverja daga, án þess að við yrðum þess vör, þangað til allt var komið í óefni. Þannig gengur svona lagað jafnan fyrir sig,“ segir Úlfar.

Mikil óvissa

Hólmfríður María Ragnhildardóttir, fréttastjóri á Morgunblaðinu, fór að taka eftir hökti á tölvukerfinu upp úr hádegi í gær og að það virtist tengjast fleiri kerfum, óvenju margt virkaði ekki eins og það átti að gera.

„Ég hafði þá samband við tölvudeildina og þá voru menn nýbúnir að gera sér grein fyrir því að við hefðum orðið fyrir netárás,“ segir hún. Skömmu síðar var slökkt á öllum kerfum í húsinu í varúðarskyni. Óvissan var strax mikil og fólk dreif að.

„Alla jafna er fámennt hér í Hádegismóum á sunnudögum en nú var húsið allt í einu fullt af fólki. Menn gerðu sér snemma grein fyrir því að staðan væri alvarleg og ekki víst að hægt yrði að koma mánudagsblaðinu út. Blaðamenn unnu þó áfram að sínum verkefnum utan kerfis til að hafa allt klárt ef úr rættist. Það hefur verið í mörg horn að líta,“ sagði Hólmfríður María seint í gærkvöldi.

„Þetta er ekki dagur sem ég mun gleyma í bráð.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert