„Ákveðin tegund af hryðjuverkastarfsemi“

„Þetta er bara hinn nýi veruleiki,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
„Þetta er bara hinn nýi veruleiki,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsætisráðherra segir netárásir vera tegund af hryðjuverkastarfsemi. Hann telur sjálfsagt að árásin sem Árvakur varð fyrir um helgina verði rannsökuð gaumgæfilega.

Eins og fram hef­ur komið réðst rúss­nesk­ur hakk­ara­hóp­ur á net­kerfi Árvak­urs, út­gáfu­fyr­ir­tæk­is Morg­un­blaðsins, á sunnudag. Gögn úr innra kerfi Árvak­urs voru læst og dul­kóðuð en ekk­ert bend­ir til þess að upp­lýs­ing­um hafi verið lekið.

„Ég var að tala um þessa ógn síðast á 17. júní. Að við værum að fást við fjölþáttaógnir, þar með talið netárásir,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra inntur eftir viðbrögðum við netárásinni. Hann nefnir að stofnanir ríkisins séu ekki undanskildar árásum af þessum toga.

„Þetta er bara hinn nýi veruleiki, sem borið hefur á góma í þjóðaröryggisráði.“

„Sjálfsagt og eðlilegt“ að árásin verði rannsökuð

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur sagt netárásina jafngilda árás á lýðræðið í landinu.

Blaðamannafélag Íslands hefur krafist þess að íslensk stjórnvöld rannsakið netárásina gaumgæfilega. 

Ætla stjórnvöld að verða við þessari kröfu Blaðamannafélagsins?

„Það finnst mér sjálfsagt og eðlilegt að það sé gert. Og við höfum verið að gera það á almennum nótum, meta varnir landsins, lykilstofnanna og mikilvægra innviða með hliðsjón af þessari ógn. Það verður bara tekið til skoðunar hvað er verið að fjalla um þar,“ svarar forsætisráðherra og bætir við:

„Ég ætla ekki að úttala mig á þessum tímapunkti hversu nákvæmlega verður farið í þetta tiltekna mál.“

Stjórnvöld er ekki undanskilin árásum

„Þetta er hluti af fjölþáttaógnum sem ríki standa frammi fyrir. Það er ljóst á þeim tilvikum sem hafa komið upp bæði hjá Háskólanum í Reykjavík, Morgunblaðinu og öðrum tilvikum sem við þekkjum,“ segir Bjarni.

mbl.is hefur heimildir fyrir því að í það minnsta sex íslensk fyrirtæki hafi orðið fyrir tjóni innan við ár vegna gagnagíslatökuárása.

Og eins og Morgunblaðið greindi frá í morgun hefur netárásum á íslenskar vefsíður fjölgað gífurlega frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022.

„Stjórnarráðið er ekki undanskilið, við skulum muna eftir því að Alþingi varð fyrir netárás þegar Evrópuráðið fundaði í Reykjavík á síðasta ári. Þetta er ákveðin tegund af hryðjuverkastarfsemi í raun og veru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert