„Býst við því að þetta endi í gerðardómi“

Formaður Tollvarðafélagsins á von á því að kjaradeila félagsins við …
Formaður Tollvarðafélagsins á von á því að kjaradeila félagsins við samninganefnd ríkisins verði vísað í gerðardóm. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélagsins, telur allar líkur á að tekin verði ákvörðun um að vísa kjaradeilu félagsins við samninganefnd ríkisins til gerðardóms á morgun. 

„Á undanförnum tíu árum höfum við dregist aftur úr vegna þess að við höfum ekki verkfallsrétt. Við bara tökum alltaf á okkur þær hækkanir sem okkur eru réttar,“ segir Guðbjörn, en útreikningar benda til þess að tollverðir hafi dregist aftur úr öðrum op­in­ber­um starfs­mönn­um um í kring­um 10% í laun­um á und­an­förn­um árum.

Bera skarðan hlut frá borði hvað launaþróun varðar

Um er að ræða útreikninga Hagfræðastofnunar Háskóla Íslands, en Tollvarðafélagið leitaði álits stofnunarinnar eftir áramót á grundvelli ákvæðis í kjarasamningi um að félagið þyrfti að snúa sér til hlutlausrar stofnunar áður en kjaradeilu yrði vísað í gerðardóm. 

„Þá kom í ljós að við berum svolítið skarðan hlut frá borði hvað varðar launaþróun,“ segir Guðbjörn og bætir við:

„Á undanförnum tíu árum höfum við dregist aftur úr vegna þess að við höfum ekki verkfallsrétt. Við bara tökum alltaf á okkur þær hækkanir sem okkur eru réttar.“

„Við er sammála um að vera ósammála“

Hvað ágreining kjaradeilunnar varðar útskýrir Guðbjörn að samningsaðilar, ríkið og Tollvarðafélagið, séu ósammála um túlkun, eða bókun, Hagfræðastofnunar HÍ. 

„Við erum sammála um að vera ósammála, það eru engin leiðindi. Við erum bara ekki sammála um túlkunina á þessu blaði og því sem þar kemur fram,“ segir Guðbjörn og bætir við:

„Mín tilfinning er sú að þetta sé komið á ákveðinn endapunkt og býst við því að þetta endi í gerðardómi.“

Viðræðurnar hafi tafist

Morgunblaðið greindi frá því um miðjan maí að ekkert gengi í kjaraviðræðum samningsaðila og því væri til umræðu innan Tollvarðafélagsins að vísa kjarasamningnum í gerðardóm. Spurður hvers vegna deilunni hafi ekki verið vísað til gerðardóms frá þeim tíma svarar Guðbjörn: 

„Já, þetta var komið svolítið langt þá en svo hefur þetta tafist. Auðvitað hefur samninganefnd [ríkisins] verið svolítið upptekin eins og gefur að skilja, með BSRB, BHM og KÍ og fleiri. Þannig að þeir hafa eðlilega ekki haft mikinn tíma, sem við höfum sýnt fullan skilning.“

Hann segir félagið hafa sýnt biðlund til að sjá fyrst hverju BSRB og BHM næðu fram. Nú sé það búið að skýrast og þar að leiðandi ljóst hvað ríkið hefur upp á að bjóða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert