„Er kannski að gerast fullhægt“

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og formaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og formaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er allt að stefna í rétta átt en það er kannski að gerast fullhægt,“ segir formaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins innt eftir viðbrögðum við þeim tíðindum að verbólga fari hjaðnandi.

Verðbólga mæl­ist nú 5,8% og minnkaði úr 6,2% í síðasta mánuði. Þá mældist vísi­tala neyslu­verðs án hús­næðis 4%. Verðbólg­an hefur ekki verið svona lág síðan í janú­ar 2022.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og formaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir tíðindin að sjálfsögðu mjög jákvæð en að hjöðnunin séu nokkuð í takt við væntingar greiningaraðila. 

Þá segir hún jákvætt að sjá að verðbólga án húsnæðis sé 4%.

Nokkuð í takt við væntingar

„Við höfðum auðvitað viljað sjá þetta koma kröftugar niður en eins og ég segi var þetta nokkuð í takt við væntingar,“ segir Anna Hrefna en hún talar um að óvíst sé hvort um sé að ræða nægilega mikla lækkun til hún hafi áhrif á stýrivaxtaákvarðanir.

Þá segir Anna Hrefna að þau í samtökunum hafi trú á að verðbólgan fari áfram minnki.

„Við gerum ekki sjálf okkar eigin verðbólguspá en við fylgjumst með því sem helstu greiningaraðilar eru að gera og samkvæmt þeim þá eru horfur á að hún fari frekar hægt hjaðnandi og kannski hægar en við höfum verið að sjá í löndunum í kringum okkur,“ segir Anna Hrefna.

Gæta þurfi að ríkisfjármálum

Spurð hvaða skýringar liggi að baki þessari hægu hjöðnun segir Anna:

„Það sem hefur helst verið nefnt til sögunnar er okkar verðbólgusaga meðal annars, það er erfiðara að ná verðbólguvæntingum niður hér en í öðrum löndum. Fólk virðist ekki hafa trú á því að við getum náð verðbólgunni niður eins fljótt og annarsstaðar þar sem ekki er mikil saga um verðbólgu.“

Hún bætir við að gæta þurfi að ríkisfjármálunum þannig að þau hafi ekki eftirspurnarhvetjandi áhrif og vinni þannig á móti peningastefnunni.

„Við höfum gagnrýnt það að opinber fjármál styðji ekki nógu vel við peningastefnuna,“ segir Anna Hrefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert