Fjárfesting verði 75 milljarðar þegar yfir lýkur

Þórkatla hefur tekið við um 300 fasteignum í grindavík.
Þórkatla hefur tekið við um 300 fasteignum í grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umsóknir um uppkaup fasteigna í Grindavík til fasteignafélagsins Þórkötlu eru að verða 900 talsins. Þinglýstir kaupsamningar eru nú um 730 og kostnaðurinn við þá fjárfestingu nemur 55 milljörðum króna.

Þetta seg­ir Örn Viðar Skúla­son fram­kvæmda­stjóri Þór­kötlu í sam­tali við mbl.is.

„Umsóknir eru að slá í 900 eignir hjá okkur og við eigum von á að heildarfjöldi geti verið svona 950,“ segir Örn.

170 umsóknir óafgreiddar

Enn á eftir að afgreiða 170 umsóknir og eru ýmsar ástæður fyrir því. Sumt af þessu eru nýjar umsóknar en aðrar hafa tekið lengri tíma.

Segir hann að ferlið taki lengri tíma í málum þar sem eru hindranir. Þar getur verið um að ræða fasteignir í byggingu, dánarbú og fleira.

„Við erum að vinna þétt með fólki við að leysa það.“

Þórkatla tekið við 300 fasteignum

Búið er að senda 70 seljendum lokauppgjör til rafrænnar undirritunar og Þórkatla gekk í vikunni frá fyrstu afsölunum og afsalsgreiðslunum. Þórkatla hefur tekið við um 300 fasteignum og gerir hann ráð fyrir því að í júlí muni Þórkatla taka við 300 fasteignum í viðbót.

„Það eru svona ákveðin kaflaskil í verkefninu með því,“ segir Örn.

Heildarfjárfestingin af þeim 730 kaupsamningum sem liggja fyrir eru 55 milljarðar. Þegar restin af umsóknunum verða afgreiddar þá má áætla að kostnaðurinn verði í heild 75 milljarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert