Heildarkostnaður varnargarða nálgast 7 milljarða

Í nýafstöðnu gosi fór hraun yfir varargarða.
Í nýafstöðnu gosi fór hraun yfir varargarða. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur gefið ríkislögreglustjóra heimild til að hefja vinnu við hækkun og styrkingu varnargarða í nágrenni Grindavíkur. Heildarkostnaður garðanna er talinn nema 7 milljörðum króna.

Greint er frá þessu í á vef Stjórnarráðsins en þar kemur einnig fram að um sé að ræða sjöttu ákvörðun dómsmálaráðherra um að reisa skuli eða styrkja varnargarða til að koma í veg fyrir að mikilvægir innviðir verði fyrir tjóni.

Þann 18. júní braust hrauntunga yfir varnargarðinn við Svartsengi. Hraunið hækkaði jafnt og þétt við varnargarðinn og áður en gosi lauk var unnið að jarðvegsframkvæmdum og hraunkælingu í kappi við tímann.

Markmiðið með hraunkælingunni var að hægja á framgangi hrauns en henni var beitt á fjórum stöðum við varnarveggi og Grindarvíkurveg.

Hefur í för með sér kostnaðarauka

Ákvörðun dómsmálaráðherra um styrkingu garðanna er tekin eftir að ríkislögreglustjóri lagði til við ráðherrann að ráðist yrði sem fyrst í viðbætur við varnargarðana í Svartsengi í byrjun Júní.

Áætlaður viðbótarkostnaður vegna hækkunarinnar á varnargörðunum er um 250-350 milljónir króna.

Upphaflega var heildarkostnaður framkvæmda við garðana metinn 6 - 6.5 milljarðar króna en með öllum viðbótum er talið að kostaður verði nú nær 7 milljörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert