Landris á sama hraða og fyrir síðasta gos

Landris er með sama hraða og fyrir síðasta eldgos. Það …
Landris er með sama hraða og fyrir síðasta eldgos. Það stóð yfir í 24 daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landris í og við Svartsengi er á svipuðum hraða og fyrir síðasta eldgos, sem lauk um helgina, samkvæmt nýjustu gögnum sem Veðurstofa Íslands hefur undir höndum.

Þetta segir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Miðað við nýjustu tölur sem við höfum verið að fara yfir í dag þá virðist landrisið aftur verið komið á svipaðan hraða og það var fyrir síðasta gos,“ segir Jóhanna.

„Þetta virðist vera endurtekin saga“

Kvikusöfnunin er undir Svartsengi eins og áður og hefur landrisið hraðað á sér síðan gosinu lauk. Veðurstofan vinnur nú úr nýjum gervihnattargögnum og GPS-gögnum.

Á morgun ætti að verða ljóst hversu mikil kvika hefur safnast undir Svartsengi og mun Veðurstofan gefa það út. 

„Þetta virðist vera endurtekin saga,“ segir segir Jóhanna.

Nokkrar vikur í aukinn viðbúnað

Almennt hafa safnast fyrir 8-13 milljón rúmmetrar af kviku áður en eldgos eða kvikuhlaup fara af stað. Spurð hvort að hægt sé að vita hvenær næsti atburður verður segir hún:

„Það má gera ráð fyrir allavega nokkrum vikum áður en við komum á þann stað að fara í aukinn viðbúnað.“

Hún bætir því þó við að síðasta gos hafi verið undantekning. Þá hafi safnast yfir 20 milljón rúmmetrar af kviku og ef miða megi við Kröfluelda þá þurfi oft að safnast enn meiri kvika fyrir næsta gos en þurfti til að hleypa af stað fyrri gosum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert