Mikill viðbúnaður þegar tveimur var bjargað úr sjó

Lögregla, slökkvilið og sjúkrabílar voru kallaðir á vettvang.
Lögregla, slökkvilið og sjúkrabílar voru kallaðir á vettvang. Eggert Jóhannesson

Slökkvilið, lögregla og sjúkrabílar voru kallaðar út eftir mannlaus sæþota sást út af Seltjarnarnesi. Tveir menn fóru í sjóinn. Hafði öðrum þeirra tekist að synda í land en hinn var enn í sjónum þegar að var komið.  

Hjá stjórnstöð slökkviliðsins fengust þær upplýsingar að manninum í sjónum hafi verið bjargað á björgunarbát slökkviliðsins. Virtist hann í vanda og gat hann ekki komið sér á sæþotuna. Var hann að reyna að synda í land þegar viðbragðsaðilar björguðu honum. 

Ekki er talið að mönnunum hafi orðið meint af volkinu þó þeir hafi verið kaldir og þreyttir.

Á vettvang komu, kafarar, slökkvibíll, sjúkrabílar, björgunarsveit og lögregla.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert